Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2013 | 10:00

Charley Hull vildi verða njósnari (1/5)

„Já, ég vildi verða njósnari“ segir Charley Hull grafalvarlegri röddu, aðspurð hvað hún vildi verða hefði hún ekki gerst atvinnumaður í golfi.

Þessi 17 ára Solheim Cup stjarna, sem nýlega var valin nýliði ársins á LET sagði nú nýlega í viðtali að ef henni hefði ekki verið kennt heima „myndi ég líklega enn vera í skóla. Vinir mínir eru flestir snyrtifræðingar og hárgreiðslukonur og fleira í þeim dúr.  Stráka vinir mínir eru flestir byggingarmenn. Þannig að ég myndi líklegast hafa orðið snyrtifræðingur  …… jafnvel þó ég hefði kosið að verða njósnari.“

Nú á árinu varð Hull fimm sinnum í 2. sæti í fyrstu 6 mótunum sem hún lék í á LET. Hún var líka yngsti leikmaðurinn á Solheim Cup, sem er samsvarandi keppni hjá konunum og Ryder Cup hjá körlunum. Meðan margir jafnokar hennar í bandaríska liðinu ældu af stressi var Charley ekkert nema sjálfsöryggið. Þetta er eiginlega alger synd vegna þess að þessir eiginleikar hennar hefðu komið sér vel í njósnastörfum.

„Hvernig veistu að ég er ekki einn slíkur (þ.e. njósnari)? “ sagði Hull við þann sem tók viðtalið og kipraði saman augum.

Það væri nú heldur betur góður dulbúningur að vera ein af efnilegustu ungu kvenkylfingum heimsins. „Jamm,“ samþykir Charley og heldur ekki póker feisinu lengur heldur skellir upp úr í smitandi hlátur.

„Allir halda að ég sé að fljúga í einhver mót en ég er í raun í leynilegum njósnaferðum. Ég gæti verið það (þ.e. njósnari). Þú veist aldrei…..“

„Þegar ég var yngri njósnaði ég oft um systur mínar. Ég átti svona lítinn hlut sem bíbbaði í þegar einhver gekk framhjá. Svo var ég líka með byssu – sem skaut fljúgandi diskum. Ég skaut systur mínar nokkrum sinnum. En oftast njósnaði ég bara um Nicole og Lísu (systur sínar). Ég held að þær hafi ekkert vitað af þessu – ég var svo góð.“

Eftir að hafa orðið í 6. sæti á peningalista LET þá segist Charley vera tilbúin að fullnægja metnaði sínum. „Ég ætla mér að verða besti kvenkylfingur í heimi. Ég ætla mér að ná því markmiði 21 árs. Þangað til á ég eftir að læra margt en ég á eftir að verða enn betri. Og vitið þið hvað? Ég held að það að verða nr. 1 verði jafnvel enn betra en að vera njósnari!“