Ernie Els – Meistari Opna breska 2012
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 23. 2012 | 20:30

Hver er kylfingurinn: Ernie Els? (1. grein af 7)

Þetta er svo sannarlega vika Ernie Els og því verður meistari Opna breska 2012 kynntur næstu 7 daga.  Jafnvel hörðustu aðdáendur Ernie kynnu að finna eitthvað nýtt um átrúnaðargoðið.  Vissuð þið t.d. að Ernie heitir fullu nafni Theodore Ernest Els og að skammstöfunin fyrir það er TEE eða teigur/tí á ensku? Maðurinn virðist ekki bara fæddur heldur líka skírður til þess að spila golf!!!

Hvað fæðingardaginn varðar þá er Ernie fæddur í Jóhannesarborg í Suður-Afríku 17. október 1969 og verður því 43 ára í haust. Uppnefni hann er „The Big Easy“ vegna þess hversu hár hann er 1,91 metrar (6 fet og 3 tommur) og vegna afslappaðrar, mjúku golfsveiflu sinnar, sem hann er svo þekktur fyrir.

Meðal 65 sigra hans eru 4 sigrar á risamótum; en hann sigraði á Opna bandaríska í Oakmont Country Club 1994; og sama mót 1997 í Congressional Country Club og síðan Opna breska 2002 í Muirfield og síðan 10 árum síðar, þ.e. í gær á Royal Lytham & St. Annes. Hann er aðeins einn af 6 kylfingum sem sigrað hafa tvívegis á bæði Opna breska og Opna bandaríska.

Ernie hefir trónað á toppi heimslistans og hann er sá kylfingur sem er í 7. sæti yfir þá sem eiga flestu sigrana á evrópsku mótaröðinni eða 27.  Í dag er hann í 15. sæti heimslistans. Auk þess hefir hann 16 sinnum sigrað á PGA Tour og 19 sinnum á Sólskinstúrnum suður-afríska.  Ernie var á toppi peningalistans í Evrópu 2003 og 2004 og eins hefir hann orðið heimsmeistari í holukeppni 7 sinnum. Hann var sá tekjuhæsti á Evróputúrnum, þar til Lee Westwood velti honum af þeim stalli 2011. Hann var sá fyrsti á Evróputúrnum til þess að hljóta meir en 25 milljónir evra á evrópsku mótaröðinni.

Ernie er þegar kominn í frægðarhöll kylfinga en hann hlaut kosningu inn í hana 2010 og fór hátíðleg athöfn fram í tilefni þess í maí  2011.

Þegar hann er ekki að spila hannar hann golfvelli, sinnir góðgerðarmálum m.a. í þágu þeirra sem eru efnalitlir í Suður-Afríku og eins rekur hann ábatasama vínyrkju og selur vín. Hann hefir líka verið vinsæll golfpistlahöfundur í Golf Digest í mörg ár.

Heimild: Wikipedia