Ernie Els – Meistari Opna breska 2012
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 31. 2012 | 17:45

Hver er kylfingurinn: Ernie Els? (2. grein af 7)

Ernie Els ólst upp austur af Jóhannesarborg í Kempton Park, Suður-Afríku. Hann spilaði rugby, krikket, tennis og  byrjaði að spila golf 8 ára. Hann var hæfileikaríkur tennisleikari og vann  Eastern Transvaal Junior Championships 13 ára. Els lærði að spila golf í  Kempton Park Country Club , þar sem hann byrjaði að draga fyrir pabba sinn, Neels. Hann var fljótt orðinn betri en pabbinn (og eldri bróðir hans, Dirk) og 14 ára var hann kominn með 0 í forgjöf. Það var um það leyti, sem Ernie ákvað að einbeita sér algerlega að golfinu.

Fyrsti markverði sigur hans, sem vakti athygli á honum er þegar hann vann hann Junior World Golf Championship í aldursflokknum 13–14 ára. Phil Mickelson var í 2. sæti á eftir Els þarna. Els sigraði síðan South African Amateur Championship nokkrum mánuðum eftir að hann varð 17 ára og var sá yngsti til að hafa unnið það mót. Hann sló aldursmet landa síns, Gary Player, þarna.

Ernie kvæntist konu sinni Liezl, árið 1998 í Höfðaborg og þau eiga tvö börn: Samantha og Ben. Árið 2008 eftir að Els fór að vera með  „Autism Speaks“ lógó á golfpokanum sínum var tilkynnt að sonur Ernie,  Ben, sem þá var 5 ára, væri einhverfur.

Aðalheimili þeirra er Wentworth Estate nálægt Wentworth Golf Club í Suður-Englandi. Els fjölskyldan ferðast þó oft á milli Suður-Afríku og heimilis þeirra í Jupiter, í Flórída, einkum til þess að fá betri lækningu fyrir Ben.