Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2013 | 14:00

Moe Norman – Kylfingurinn sem vann 55 mót á ferli sínum (3/8)

Kanadíski kylfingurinn Murray Irwin Norman alltaf kallaður Moe var e.t.v. einn besti kylfingur heims á sínum tíma, í að slá bein högg. Hann sló svo beint og svo stöðugt beint, að hann var uppnefndur „Pipeline Moe.” Hann á 3 hringi upp á 59 högg og sigraði 55 sinnum á atvinnumannsferli sínum, en Moe gerðist atvinnumaður í golfi 1957.  Hann var í einu orði sagt Frábær!

Þegar Moe var 5 ára lenti hann í bílslysi og var talið að hann hefði orðið fyrir heilaskaða og varð hann aldrei samur eftir. Hann var a.m.k. ekki eins og fólk er flest; var einfari, sérvitur og átti oft erfitt um ævina. En kylfingur var Moe af lífi og sál og það einn sá besti.  

Þann 30. ágúst 2004, fimm dögum fyrir andlát Moe, 4. september 2004, tók Golf Digest langt viðtal við Moe. Hér kemur 3. hluti þessa langa viðtals við Moe. Hinir 5 hlutarnir birtast á næstu dögum.

Gefum Moe orðið:

„Jafnvel á táningsárum mínum og fram yfir tvítugt svaf ég í sandglompum og húkkaði far til þess að komast frá einum stað til annars. Sumir hlógu að mér og stríddu mér stöðugt „Hvar svafstu í nótt, Moe?” Enginn hjálpaði mér þar til ég varð 26 ára og mér mislíkaði það alltaf. 

Á 6. áratug síðustu aldar var ekki neinn pening að hafa með því að vera atvinnumaður í golfi í Kanada. Ég var því áfram áhugamaður og vann við að raða upp keilum í keilusal allan veturinn til þess að ég gæti spilað golf á sumrin. Þetta var áður en vélar komu sem röðuðu keilunum upp. Þetta var erfið vinna, en drengur, ég var góður í því sem ég gerði. Ég gat unnið á 4 brautum í einu vegna þess að keilurnar voru 5 en ekki 10. Ég hoppaði frá einni braut yfir á þá næstu eins og hunangsfluga. Enginn var hraðari eða betri en ég. 

Á 9. og 10. áratug síðustu aldar fór ég í gegnum enn einn erfiðleikatímann. Kanadíski PGA túrinn missti styrktaraðila sína og um skeið varð ég að sofa í bílnum mínum. Svo fór ég á PGA sýninguna í Orlando. Ég var í Titleist básnum þegar hr. [Wally] Uihlein, forstjórinn, gekk upp að mér. „Ég sé að þú ert enn með skyggnið þitt og ert í Foot.Joy skónum frá okkur,” sagði hann. „Þú hefir spilað með boltum frá okkur í 40 ár. Hefir einhver einhvern tímann gert eitthvað fyrir þig?” Ég sagði honum að enginn hefði gert eitthvað og að þeir hefðu heldur aldrei spurt. Hr. Uihlein sagði „Réttu mér höndina.” Ég tók í höndina á honum og hann sagði „Þú færð $ 5000 (u.þ.b. ísl. kr. 575.000,-) frá okkur á mánuði það sem eftir er ævinnar.” Það var mikil hjálp. Það var einhvers staðar milli þessa atviks og Natural Golf kennslu prógramsins (golfkennsluprógram þar sem sveifla Moe, grip hans o.fl. var krufið til mergjar), sem ég gat opnað fyrsta bankareikninginn minn. 

Meðan enn var lítið um pening hjá mér varð ég að spila með sama bolta þar til þeir voru ofslegnir. Bolti með balata lagi entist nákvæmelga 5 hringi áður en hann virkaði ekki lengur eða varð of mjúkur. Þá var tími kominn til að leita í trjánum að boltum sem einhver hafði týnt eða reyna að krækja sér í nýja.

Ég kvæntist aldrei. Reyndar fór ég bara á 3 deit (um ævina). Ef ég hefði kvænst hefði það ekki verið sanngjarnt gagnvart konu minni, vegna lífs míns sem kylfings. Það hefði líklega endað í skilnaði og hún hefði fengið allt. Ég hugsa að það sé þannig sem það virkar, ef maður á að dæma eftir því sem gerst hefir hjá nokkrum vina minna. Ég er mjög hamingjusamur að vera einn.

Hvað myndi ég gera ef ég ynni $20 milljónir (2,3 billjónir íslenskra króna) í lottó? Ég myndi gefa þetta allt, líklega til eins af ættingjum mínum, jafnvel þó þeir hafi aldrei þótt nægilega vænt um mig til þess að koma og horfa á mig spila.

Mér líka ekki þessar súper-löngu par-3 brautir þar sem meðalkylfingurinn þarf að draga upp tré til þess að ná inn á flöt. Þær eru hræðilegar – Maður slær 15 eða fleiri högg með trjánum á öðrum holum; það er nóg. Á hinn bóginn þá líkar mér heldur ekki við par-4 brautir þar sem strákarnir slá með járnum af teig. Hvað eru þessir golfvallarhönnuðir að hugsa? Þeir snúa öllu við í hönnuninni. Þeir halda að þeir séu klárir, en þeir eru einmeitt það gagnstæða.