Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2014 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LET 2014: Caroline Martens (31/31)

Það var 31 stúlka sem komst í gegnum Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut kortið sitt á Evrópumótaröð kvenna, LET (Ladies European Tour).

Mótið fór fram dagana 14.-18. desember 2013 á golfvöllum Al Maaden og Samanah CC í Marrakech, Marokkó. Leiknir voru 5 hringir og eftir 4. hringinn var stúlkunum 92 sem upphaflega voru 94, fækkað niður í 60 og þar af hlutu 31 efstu eftir 5. og lokahringinn keppnisrétt á LET fyrir keppnistímabilið 2014.

Nú er aðeins eftir að kynna þá stúlku sem sigraði á mótinu en það var „norska frænka okkar“ Caroline Martens.

Caroline Martens

Caroline Martens

Martens hefir verið hampað sem næstu stórstjörnu golfsins í Noregi og sem arftaka Suzann Pettersen.  Hún hafði alveg ótrúlega yfirburði yfir þær sem næstar urðu í mótinu en Martens átti 8 högg á þær, lék á samtals 13 undir pari, 347 höggum (67 71 72 73 64), en lága skorið sitt getur hún einkum þakkað frábærum lokahring upp á 64 högg!!!

Þetta er frábær tilfinning,“ sagði Caroline Martens, eftir að ljóst var að hún hefði sigrað í Lalla Aicha Tour School. „Ég spilaði frámunalega vel og gerði engin mistök þarna úti. Ég var að slá boltann fullkomlega, ég púttaði vel. Þetta var frábær golfhringur (lokahringurinn), sá besti sem ég hef spilað,“ sagði Caroline ánægð, sem var með mömmu sína, Ingrid, á pokanum.

„Eina orðið sem ég hugsaði um í hverju höggi á hverjum degi var ÞOLINMÆÐI. Þetta er maraþonvika, ég varð að vera þolinmóð; þetta er ekki búið þar til að það er búið. Jafnvel í síðasta púttinu á 18. sagði ég áfram við sjálfa mig, ég verð að vera þolinmóð, ég verð að vera þolinmóð, bara anda, taka eitt högg í einu, ekki fara fram úr mér og njóta andartaksins virkilega.“

Caroline Martens

Caroline Martens

En hver er síðan Caroline Martens?

Caroline fæddist 27. desember 1986 í Osló, Noregi og er því 27 ára.  Hún byrjaði 13 ára í golfi og það var mamma hennar Ingrid, sem kenndi henni, en Caroline segir mömmu sína líka vera mesta aðdáanda sinn. Caroline var 4 ár í bandaríska háskólagolfinu en hún lagði jafnhliða stund á sálfræði við  Louisiana State University og útskrifaðist þaðan með sálfræðigráðu með sérhæfingu í einhverfum börnum.

Helstu áhugamál Caroline fyrir utan golfið eru að vera á snjóbretti, við köfun, í fjallgöngum að ferðast og kynnast nýjum menningarheimum.

Helstu styrktaraðilar Martens eru: Puma, Callaway og Support Point.

Hægt er að „followa“ Martens á  Twitter @CarolineMarten1, Instagram eða fræðast nánar um hana á heimasíðu hennar sem komast má á með því að SMELLA HÉR: