Viðtalið: Baldvin Jóhannsson, GK.
Það þekkja allir Keilismenn Balla, enda er hann búinn að vera í Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði s.l. 34 ár. Hann gaf sér tíma til þess að svara nokkrum spurningum Golf 1.
Fullt nafn: Baldvin Jóhannsson.
Klúbbur: Golfklúbburinn Keilir frá því ég byrjaði í golfi, árið 1978. Ég gekk í klúbbinn 40 ára, en var á sjó fram að þeim tíma.
Hvenær fæddistu? Ég fæddist 24. mars 1938.
Hvar ertu alinn upp? Á Hauganesi í Eyjafirði, við Árskógsströnd,
Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf? Tvær dætur mínar spila golf: Málfríður og Rebekka – þær eru líka í Keili. Konan mín fyrrverandi dó 2000 en við vorum skilin áður. Hún gaf mér fyrsta hálfa golfsettið og 10 árum síðar vorum við skilin. Það var mikill áhugi í byrjun.
Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði árið 1978 og er því búinn að vera 34 ár í golfi.
Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Það var nú eiginlega þannig að ég fór að horfa á golfið þegar Kanasjónvarpið var hér. Á ég að segja þér eina skrítna sögu? Þegar ég hætti á sjónum fór ég að vinna í járnabindingum. Við vorum að vinna í Hrafnistu að byggja það hús og byggingaverktakarnir settu upp fer til Benidorm að hausti. Þetta var á þeim tíma þegar skattar voru alltaf borgaðir eftir á. Ég var ekki búinn að borga skattana og gat því ekki farið. Ég sagði við konuna mína: „Þú bara ferð og tekur elstu stelpuna með þér.“ Það var millilent í London á leiðinni heim og þar keypti hún 1/2 sett og gaf mér þegar hún kom heim. Það var bara hætt við að fara í ferðina, vegna þess að ég var ekki búinn að borga skattana.
Hvað starfar þú? Ég var á sjó og starfaði við járnbindingar og svo byrjaði ég 1. september 1989 að vinna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 36. Þar var ég og bjó í rúm 4 ár og var síðasti ábúandi þar. Síðan flutti ég mig í Lækjargötuna í Forsætisráðuneytið, þar sem ég var þar til ég hætti störfum, 68 ára. Nú er ég í eftirlitinu hjá Keili yfir sumarið og hef verið hér síðustu árin, en var í þesssu með vinnu hér áður. –
Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli? Mér líkar betur við skógarvelli. Þeir eru oft skemmtilegri. En það er erfitt að meta svona, þetta fer svo mikið eftir völlunum. Bæði formin eru skemmtileg.
Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni er skemmtilegri – en yfirleitt er alltaf spilaður höggleikur. Holukeppni er skemmtilegra fyrirkomulag, þannig var golf alltaf spilað hér áður fyrr.
Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Vestmannaeyjavöllurinn er alltaf ofarlega í svona spurningu. Hann er algjör perla. Ég myndi segja það – þó maður sé alinn upp hér á Hvaleyrinni. Það er bara umhverfið.
Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Það eru nokkrir vellir í Thaílandi sem mér finnast bestir. Þetta eru allt toppvellir í Thaílandi. Ég er búinn að spila um 200 velli og ábyggilega 18 á Pattaya svæðinu. Ég er búinn að fara 10 sinnum til Thaílands.
Segi oft að ég sé búinn að spila krossinn: þ.e. Bandaríkin – Suður-Afríku – Thaíland og Akureyri. Suður-Afríka er ennþá toppurinn í golfferðum að sjá allt þetta í Suður-Afríku. Við vorum í rútu og keyrðum rosalega mikið og spiluðum þó nokkra velli. Linksarinn í Fancourt í George þar sem President Cup 2003 fór fram var flottur. Svo var bara gaman að koma til Jóhannesarborgar, Höfðaborgar og í Stellenbosch í vínræktarhéraðið þar.
Hvað ertu með í forgjöf? Í dag 74 ára er ég kominn upp í 12, 4 en komst lægst í 5,4 (þó ég hafi ekki byrjað fyrr en 40 ára).
Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 67 þegar Hvaleyrin hér var par-68 áður en hraunið kom. Eina skiptið sem ég hef spilað undir pari þá enduðum við á 12. braut (sem er 12. í dag) -Það hafa verið svo margar breytingar – Ætli það hafi verið fleiri en 200 í klúbbnum þegar ég byrjaði 1978. Og svo var Hvaleyrin var bara 12 holu þegar ég byrjaði.
Hver er stærsta breytingin frá því þú byrjaðir í golfinu? Það var þegar Hraunið kom – þá vorum við með 18 holur á Hvaleyrinni.
Hver er helsta breytingin í golfinu svona almennt séð þ.e. burtséð frá breytingum á Hvaleyrinni? Það er svo miklu meira af betri kylfingum og það er farið að vinna meira með börnum og unglingum það er stærsta breytingin.
Kannstu skemmtilega sögu af vellinum? Er gleyminn – stutta minnið farið.
Hvert er lengsta drævið þitt? Ætli maður hafi ekki einhvern tímann náð yfir 200 metra. Það besta hjá mér í golfinu voru drævin Ætli það hafi ekki verið 250 metra.
Hvað finnst þér um nýju reglurnar að maður verði að skrá forgjafarhring og láta meðspilara staðfesta skorið? Mér finnst það bara bull – ég kann ekkert á þetta.
Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Ég varð 8 sinnum í landsliði öldunga, sem er bara nokkuð gott miðað við að hafa byrjað svona seint í golfinu.
Hefir þú farið holu í höggi? 4 sinnum – Allt á Hvaleyrinni – Það eru 2 holur sem ekki eru í dag á 11. hún var par-3 var spiluð öfugt við 11 núna þar fór ég fyrst holu í höggi og svo tvisvar við greenið á 15. og svo einu sinni á 16. holu
Hvaða nesti ertu með í pokanum? Ég er ekki með nesti í pokanum – bara með vatnsflösku; vatn úr krananum ekkert sódavatn eða kristall. Ég fæ mér alltaf eitthvað áður en ég fer að spila.
Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, já þegar maður var unglingur var maður í öllu – Ég var í fótbolta keppti með Reyni á Árskógsströnd.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn: Það er bara allur fiskur og einkanlega siginn fiskur; ég fæ vatn í munninn þegar þú minnist á hann; uppáhaldsdrykkur: íslenska vatnið; uppáhaldstónlist: ég er ekkert mikið inn í tónlist – ef ég hlusta á tónlist finnst mér skemmtilegust einsöngvara- eða kóratónlist; uppáhaldsbók: ég hef ekki lesið í mörg ár. Bækur Alistair McLean voru alltaf í uppáhaldi og á tímabili hafði ég rosalega gaman af því að lesa ævisögur; Uppáhaldskvikmyndin: Hef ekki farið í bíó í mörg ár – Það er alveg vonlaust að spyrja mig að þessu.
Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Tigerinn og á ég svo að nefna konu??? Konu??? Maður er farinn að horfa aðeins á kvennagofið, eigum við ekki bara að segja Annika Sörenstam svo eru þessar kóresku að taka þetta yfir – svo er ein 15 ára Lydia Ko sem er að koma og er góð.
Hvert er draumahollið? Ég og…… Tiger, Ballesteros og Nick Faldo.
Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Ég er með PING G-10 járn og Dræver G-2 og það er uppáhaldskylfan mín – Hitt er samansafn af dótaríi – 3-tréð og 5-tré keypt á Thaílandi – ég týndi brautartrjánum og var að basla við að koma þeim inn aftur. Pútter: Odyssey Two-ball White.
Hefir þú verið hjá golfkennara? Nei, það er ekki einu sinni hægt að nefna það.
Ertu hjátrúarfullur? Nei.
Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Meginmarkmiðið er ekki að verða betri; Það er á hinn veginn – maður reynir að halda í það sem maður hafði. Í lífinu: að takast á við ellina.
Hvað finnst þér best við golfið? Hreyfingin. Margir segja að það sé félagsskapurinn en sumir geta verið leiðinlegir og aðrir hreint óþolandi.
Að lokum: Ertu með eitthvað gott ráð handa kylfingum? Ekki nema bara það að stunda íþróttina af samviskusemi og vandvirkni og vera með gott hugarfar.
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024