Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 12. 2011 | 20:00

Viðtalið: Tómas Þráinsson, GSG

Viðtalið í dag er við Tómas Þráinsson, GSG, en Tómas fékk glæsilegan albatros í sumar á á par-5 3. brautinni, á Kirkjubólsvelli á 3. degi meistaramóts GSG.  Það er ekki á hverjum degi sem fréttir berast af kylfingi hér á landi sem nær að spila par-5 braut á 2 höggum!!! Tómas sagðist hafa verið 175 metra frá holu eftir drævið sem var nokkuð gott og notaði 6-járn í höggið góða, sem fór beint ofan í holu! Hér fara spurningar Golf1 og svör Tómasar:

Fullt nafn:  Tómas Þráinsson.

Klúbbur: GSG.

Hvar fæddistu? 8. mars 1968 í Reykjavík –  Ég er nýfluttur til Keflavíkur (2006).

Hvar ertu alinn upp?  Í Breiðholtinu (Fellahverfinu – innan um villinga og annað ævintýrafólk).

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golfi?  Ég er kvæntur Kolbrúnu Kvaran og við eigum saman Egil Úlfar – Síðan á ég 4 stjúpbörn (Ingimar 12 ára, Hafdís Birtu 16 ára, Anton Orra 20 ára og Loga Má 22 ára). Það er enginn nema ég  í golfi af fjölskyldunni.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Það var sumarið 1996  en þá gekk ég í GR og var 28 ára.  Ég keypti fyrsta settið mitt þá.  Síðasta mótið sem ég tók þátt í var  meistaramótið hjá GR 2006. Ég gekk síðan í GSG 2008, en hef ekki verið að spila af neinni alvöru í lengri tíma. Í ár var fyrsta meistaramótið, sem ég tók þátt í hjá GSG.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Ég hef alltaf haft áhuga. Ég prófaði að fikta við þetta 1982 (14 ára).  Nolan var kennari þá. Hann leyfði okkur að pútta og við fengum að fara á gamla æfingasvæðið. Árið 1987 vaknaði bakterían aftur og ég fór að prófa aftur.

Hefir þú verið hjá kennara? Já, ég var hjá John Nolan.

Hvað starfar þú? Ég er lyftaramaður í OPM – undirfyrirtæki prentsmiðjunnar Odda, sem starfar í gömlu Kassagerðinni.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Þeir eiga báðir mikið til síns ágætis, en ég er  hrifnari af strandvöllum. Þeir eru  meira lagðir í landslagið  og náttúrulega golfið heillar mig meira.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur…. og þó ég veit það ekki. Þetta er hvort tveggja ágætt en höggleikur segir meira til um það hvar maður stendur golflega séð – holukeppni er meiri heppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Grafarholtið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Old Course St Andrews. Mér  tókst það ólíklega á vellinum að slá ekki í einn einasta bönker. Ég fékk síðan að droppa í Hellbönker á 14. braut bara til þess prófa hvernig væri að slá upp úr bönker þarna og smellhitti með wedge. Náði að komast upp úr í fyrsta beint inn á green.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Það er völlur sem heitir Bears Best og er rétt  fyrir utan Atlanta, Georgía í Bandaríkjunum. Þetta er völlur sem er samsettur af öllum bestu holunum hans Jack Nicklaus – 1. besta holan hans o.s.frv. Ég var þar 2003.  Ég spilaði  líka  Eagles Landing  og enn þann þriðja, en man ekki hvað sá 3. heitir en það var Gary Player völlur.

Hvort finnst þér betra að spila í Bandaríkjunum eða Evrópu?   Ég ætla að svara þessu með 3. valkostinum – Kanada. Ég hef spilað 3 velli í Kanads. Besta aðstæðan, sem ég hef komist í var í Kanada Glen Abbey (sá klúbbur hýsti lengi Opna kanadíska mótið – þar eru flottustu búningsherbergi, sem ég hef séð). En allt í lagi til að svara spurningunni þá heillar  Evrópa mig meira St. Andrews heillar mig mest. Eins hef ég spilað Gleneagles – Monarchs Course, 2002, sem var frábær.

Hvað ertu með í forgjöf?  5,6.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   69 högg á gamla 9 holu vellinum í Sandgerði fyrir 2 árum – tók þá lækkun upp á 1 sem ég hef aldrei staðið undir.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Ég hef hæfileika í kaddýstörf – ætli mesta afrekið sé ekki þegar ég var kaddý hjá Jón Guðmundssyni og hann spilaði  spilaði á 74 á Hvaleyrinni.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Eina flösku af Poweraide/vatn og 4 banana.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, ég æfði fótbolta 12 ára með Leikni og sund til 20 ára aldurs með Sundfélaginu Ægi – náði þeim árangri að komast í landsliðið þar 1985 og var valinn í unglingalandsliðið og þaðan í A-liðið. Síðan var ég í körfubolta – fyrst með Val og síðan með Leikni.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók ? Uppáhaldsmaturinn minn er slow cooked hreindýrakjöt; uppáhaldsdrykkurinn: Guiness, uppáhaldstónlist er allt með Iron Maiden (hlusta líka á blues, jazz og klassik) – Iron Maiden stendur samt skör ofar en allir hinir, uppáhaldskvikmynd er Gaukshreiðrið, æ ég er ekki mikill bíómyndkarl en Jack Nicholson er yndislega geggjaður í henni og heillaði mig upp úr skónum), uppáhaldsbókin er svo eitthvað með Steven King – eitthvað af eldri bókunum hans: The Dark Half.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kven- og 1 karlkylfing?  Kvk.: Annika Sörenstam  /  Laura Davies  / gaman þegar hún slær með drævernum og það loftar undir fæturnar á henni. Kk.: Ernie Els.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er: PING g5- dræver, 3-tré frá Titleist , Palmer 1 járn, 2 járn frá Nicklaus, 3-járn-PW Wilson X31, 52° og 60° frá Mc Gregor og 56° sandjárn frá Mizuno, Odyssey tri-ball pútter (þetta eru 16 kylfur og ég tek út 2 kylfur). T.d. voru  2 járn og PW tekin úr fyrir meistaramót GSG.  Uppáhaldskylfan mín er  1-járnið.  Tilfellið er að í upphafi 2. sumarsins gat  ég ekki slegið högg af viti með trékylfu – þá fékk ég lánað 1 og 2 járn hjá föður eins félaga míns og löngu járnin virtust eiga vel við mig og ég tók miklu ástfóstri við þau.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Þar sem ég er búddisti  er meginmarkmiðið að koma á heimsfriði. Ef maður miðar ekki hátt þá verður maður alltaf á sama stað.

Þannig að þú ert búddisti eins og Tiger Woods? Nei, ég stunda ekki sama búddisma og Tiger Woods. Búddisminn sem ég trúi á er kennd við japanskan fræðimann frá 13. öld Nichiren Daishon.

Hvað finnst þér best við golfið?  Tengingin við náttúruna – Mér leið t.d. alltaf rosalega vel að fara út á golfvöllinn í Grafarholtinu  eftir næturvakt kl. 5-6  – vera einn og hlusta á fuglana syngja – mér líður best út á velli eldsnemma á morgnanna.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Unnari Geir Einarssyni, GS),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvað er hæsta skor sem þú hefir fengið á 1 holu?  Svar Tómasar:  Hæsta skor sem ég man eftir eru 15 högg á 15. í Grafarholtinu – Getur verið að ég hafi fengið hærra, en þetta er minnisstæðasta skorið – Ég sikk-sakk-aði fram og tilbaka eftir brautinni og baðaði síðan nokkra bolta í tjörninni.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Tómasar fyrir næsta kylfing:   Hvað er neyðarlegasta víti sem þú hefur fengið á þig?