Flötin á par-3 7. brautinni á Las Colinas golfvellinum.
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 25. 2011 | 14:00

Myndasería: Golfvellir á Spáni: Las Colinas í Alicante

Hér er komið að 4. og síðasta golfvellinum, sem kynntur verður, þar sem 2. stig úrtökumóts fyrir Evrópumótaröðina fer fram 2.-5. desember n.k. Úrtökumótin fara fram á 4 völlum á Spáni samtímis og hafa þeir þá allir verið kynntir til sögunnar hér á Golf 1.  Birgir Leifur Hafsteinsson, sem þátt tekur í 2. stigi úrtökumótsins valdi að spila á Costa Ballena.

Af völlunum 4 er Las Colinas í Alicante sá nýjasti; var tekinn í notkun á síðasta ári, 2010 og  … hann er sannkallað himnaríki á jörðu. Um það geta allir vitnað sem spilað hafa hann – þetta er völlur sem mann langar til að koma á aftur og aftur. Allt frá klúbbhúsinu með glæsilegum veitingastað og bar, búningsklefum, golfbúðar, æfingasvæðis, hæðanna (en colinas þýðir  s.s. margir vita hólar eða hæðir á spænsku), appelsínutrjánna sem enn bera ávöxt í nóvember… staðurinn er fullkomnun. Hæðirnar eru s.s. nafnið bendir til mikið einkenni vallarins, sem og drifhvítar sandglompurnar og mikið landslag er í vellinum.

Par-3, 14. brautin á Las Colinas

Par-3 brautirnar eru sérlega eftirminnilegar t.d. er 7. brautin uppáhaldsbraut margra – hún er 95 metrar af rauðum en 103 af gulum. Öllu erfiðari er par-3, 14. brautin. Hún er nokkuð sérstök því slá verður af upphækkaðri hæð inn á flöt, sem varin er af á, sem rennur framan við flötina og vatni sem er á vinstri hönd og risasandglompu á hægri hönd – hindranir eru allt í kringum flötina. Brautin er 155 m af gulum og 124 m af rauðum – Þetta er hola sem gríðarlega erfitt er að ná fugli á og í raun aðeins fyrir snillinga í íþróttinni.

Las Colinas golfvöllurinn er par-71 hannaður af Cabell B. Robinson, sem hannað hefir frábæra golfvelli á borð við La Reserva í Sotogrande og Finca Cortesin á Costa del Sol á Spáni, Praia d´El Rey í Portugal og Royal Golf d´Evian í Frakklandi.

Þó Las Colinas sé aðeins 1 ára gamall golfvöllur og í raun bara smábleyjubarn sem skríður  um í golfvallarflórunni, þá er hefir hann þegar hlotið viðurkenningu fyrir að vera einn af 100 bestu golfvöllum Evrópu. Ef maður ætti að deyja á morgun og ætti bara val um að spila 1 golfvöll hvar sem er í heiminum myndi það að öllum líkindum vera Las Colinas –  svona hljóta vellirnir að vera á himnum.

Til þess að sjá myndaseríu frá Las Colinas – smellið hér: MYNDASERÍA – LAS COLINAS –  28.11.2010