Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 9. 2015 | 08:00

Louise Suggs látin

Louise Suggs, einn af stofnendum LPGA mótaraðarinnar er látin, en hún lést í Sarasota, Flórída, 91 árs.

Golf er eins og ástarævintýri. Ef þú tekur það ekki alvarlega, þá er ekkert gaman að því, en ef þú gerir það þá mun hjarta þitt bresta. Forðist hjartabresti en daðrið við möguleikann,” er haft eftir einum helsta frumkvöðli LPGA-mótaraðarinnar, Louise Suggs.

Mae Louise Suggs fæddist 7. september 1923 í Atlanta, Georgia. Hún bjó á Delray Beach í Flórída.

1-a-Suggs

Bob Hope uppnefndi þessa 1,68 metra háu konu “Miss Sluggs”, sem er ekki sluggsari í beinni þýðingu á íslensku heldur eitthvað meira í áttina að sleggju, því Louise Suggs var á yngri árum sínum þekkt fyrir löng dræv. “Miss Sluggs” var samt líka góð í stutta spilinu, sérlega í púttum og vippum.

Ben Hogan sagði um golfsveiflu Louise Suggs: „Sveiflan hennar sameinar alla eftirsóttustu þætti skilvirkni, tímasetningar og samhæfingar. Hún (sveiflan) virðist gersamlega áreynslulaus.”

Louise Suggs byrjaði að spila golf 10 ára gömul, en faðir hennar sem var hafnaboltahetja sá um golfvöll á gamalsaldri. Sem áhugamaður vann hún mörg mót í kringum 1940.

Louise vakti fyrst athygli á sér með því að sigra 2 risamót Titleholders og Western Open 1946. Hún endurtók leikinn og var Western Open meistari 1947 og bætti við sigri á US Women´s Amateur. Hún sigraði á British Women´s Amateur árið 1948 og var í bandaríska Curtis Cup liðinu.

Um mitt árið 1947 gerðist hún atvinnumaður í golfi og við tók bitur samkeppni við Babe Didrikson Zaharias, en Suggs fannst alla tíð að Babe skyggði á sig og aðra kvenkylfinga. Árið 1949 á Opna bandaríska (kvennamótinu) (ens.: US Women´s Open) sigraði Suggs, Babe Zaharias með 14 högga mun, sem var met (þ.e. mesti munur á höggafjölda á 1. og 2. sæti) allt þar til Tiger Woods sló metið á Opna bandaríska árið 2000. Tiger Woods heldur því meti til dagsins í dag.

Á frægu móti 1953 neitað Louise Suggs að skrifa undir skorkort Babe Zaharias, eftir að dæmt var Zaharias í hag í enn einum ágreiningnum milli þeirra.

Síðast keppti Louise í móti árið 1962. Hún vann alls 58 mót, þar af 11 risamót. Hún vann í 8 skipti árið 1953 og fimm sinnum á hverju áranna 1952, 1955 og 1961.

Þ.á.m. vann hún það afrek árið 1952 að vinna bæði upphafsmót LPGA, líkt og japönsku stúlkunni Ai Miyazato tókst á Tanah Merah-vellinum 28. febrúar 2010 í Singapúr. Höfuðsamkeppninni, Babe, hafði tekist það fyrstri kvenna árinu áður 1951 og eftir Louise hafa einungis 3 konur leikið afrekið eftir á LPGA: Mickey Wright, 1963; Marilynn Smith, 1966 og Ai Miyazato, 2010.

En Louise Suggs á einnig önnur met. Hún var t.a.m. fyrst kvenna til þess að vinna sama mót á LPGA, 3 ár í röð; þ.e. hún sigraði á Dallas Civitan Open árin 1959, 1960 og 1961. Stærsta met hennar er þó það að hafa unnið öll 4 risamót í kvennagolfinu, fyrst kvenna.

Louise Suggs vann sér inn mikið verðlaunafé, var m.a. í 1. sæti peningalistans árin 1953 og 1960. Jafnframt hlaut hún Vare bikarinn fyrir lægsta meðaltalsskor á LPGA.

Louise var einn af stofnendum LPGA og var gegndi stöðu forseta samtakanna í 3 tímabil. Hún var meðal þeirra fyrstu sem hlutu inngöngu í frægðarhöll kylfinga og eins hlaut Louise árið 2007, Bob Jones-viðurkenninguna, sem USGA þ.e. bandaríska golfsambandið veitir þeim kylfingum, sem skarað hafa fram úr í íþróttamannslegri framkomu.

Eftir Louise liggur m.a. bókin: “Par Golf for Women” með inngangsorðum eftir sjálfan Ben Hogan.

Haft er eftir Louise Suggs: “Mikilvægasti einstaki lærdómurinn sem ég hef dregið af golfinu er andlegur agi.”

Loks mætti geta þess að besti nýliði á LPGA hlýtur í verðlaun bikar sem nefndur er eftir Louise þ.e. “Louise Suggs bikarinn.”