F.v.: Mæðginin Þorgeir Örn Sigurbjörnsson, GÓ, þátttakandi í Íslandsmóti unglinga í höggleik og Rósa Jónsdóttir, formaður Golfklúbbs Ólafsfjarðar, stjórnarmaður í GSÍ og nú klúbbmeistari GÓ í kvennaflokki 2013!!!. Mynd: Golf1
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2011 | 06:00

„Golfklúbbur Ólafsfjarðar“ eftir Rósu Jónsdóttur, formann GÓ

Í góðum og ítarlegum pistli í Hellunni fer Rósa Jónsdóttir, formaður Golfklúbbs Ólafsfjarðar yfir starfsemi klúbbsins á árinu, sem er að líða 2011. Þar segir:

„Sumarið 2011 var viðburðarríkt hjá Golfklúbbi Ólafsfjarðar. Félagsmönnum hefur fjölgað og starfsemin aukist jafnt og þétt.

Vertíð GÓ hófst formlega með fyrsta golfmóti sumarsins 4. júní en veturinn hafði þó verið mjög snjóléttur. Völlur kom vel undan vetri og var í mjög góðu ástandi í sumar. Veðráttan í sumar var okkur ekki hagstæð, ríkjandi norðanáttir og kuldi í mest allt sumar. Vallarstarfsmaður var Heiðar Gunnólfsson og sinnti hann starfi sínu af alúð og dugnaði. Aðrir komu og unnu í styttri tíma. Golfklúbburinn hélt byrjendanámskeið fyrir 18 ára og eldri í byrjun júní og tóku 30 manns þátt. Verður það að teljast mjög góð þátttaka.

Þann 20.júlí skrifuðu Golfklúbbur Ólafsfjarðar og Fjallabyggð undir framkvæmdasamning. Breyta þarf vellinum, færa til holur svo hægt verði að koma fyrir æfingasvæði. Vegurinn fram á golfvöll var lagfærður í sumar og lagt á hann bundið slitlag. Voru þetta nauðsynlegar úrbætur. Félagsmenn eru nú 124.

Í sumar var mjög öflugt barna- og unglingastarf og var þjálfari klúbbsins golfkennarinn Heiðar Davíð Bragason. Hann hefur náð mjög góðum árangri með þjálfun ungmennanna. Ungmennin byrjuðu undirbúning fyrir sumarið í nóvember og æfðu innanhúss í allan vetur. Fyrst um sinn með þrekæfingum og seinna var sveiflan æfð í Íþróttamiðstöðinni á Ólafsfirði og í inniaðstöðinni á Dalvík.

GÓ var þáttakandi í Unglingamótaröð Norðurlands og heldur eitt mót á Ólafsfirði, aðalstyrktaraðili mótsins á Ólafsfirði var S1 fiskverkun. Mótaröðin er samstarf golfklúbbs á Norðurlandi og hefur hún orðið til þess að barna- og unglingastarf eflist á hverju ári. 12 fulltrúar kepptu fyrir hönd GÓ.

Tveir fulltrúar kepptu fyrir hönd GÓ á Íslandsmóti unglinga í höggleik, sem fram fór á Grafarholtsvelli í Reykjavík. Það voru Brynja Sigurðardóttir og Þorgeir Örn Sigurbjörnsson. Brynja endaði í 9. sæti í stúlknaflokki 18 ára og yngri og Þorgeir Örn í 19. sæti í drengjaflokki 14 ára og yngri.

Þá átti GÓ fulltrúa á Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum. Það voru þau Davíð Fannar Sigurðarson, Guðrún Fema Sigurbjörnsdóttir, Ívan Darri Jónsson, Kristinn Jóhann Traustason, Snjólaug Anna Traustadóttir og Þorgeir Örn Sigurbjörnsson. Stóðu þau sig öll frábærlega og komu tvenn silfurverðlaun í hús.

GÓ sendi sameiginlega sveit með Golfklúbbi Húsavíkur í Sveitakeppni GSÍ, drengir 15 ára og yngri. Sveitina skipuðu þeir Davíð Fannar Sigurðarson, Ívan Darri Jónsson, Kristinn Jóhann Traustason og Þorgeir Örn Sigurbjörnsson, allir úr GÓ auk 2 keppenda úr GH. Sveitin endaði í 11. sæti af 22. Þetta var ekki einungis góður árangur heldur var þetta mikill skóli fyrir strákana.

Meistaramót GÓ var haldið í júlí. Þátttakendur voru 34. Klúbbmeistari karla varð Heiðar Davíð Bragason en kvenna Björg Traustadóttir.

Jónsmessumót Íslenska Gámafélagsins var haldið í júní.  Leikið var með Texas Scramble fyrirkomulagi. Níu pör tóku þátt. Sigurvegarar voru feðgarnir Guðmundur Ó. Garðarson og Halldór Ingvar Guðmundsson.

Miðvikudagsmótaröð Ramma hf., var haldin á miðvikudögum í sumar. Leiknar voru 12 umferðir, 9 holur í senn. Þátttakendur voru 37. Stigameistari í opnum flokki án forgjafar varð Sigurbjörn Þorgeirsson en Þorgeir Örn Sigurbjörnsson í opnum flokki með forgjöf.

Minningarmót GÓ var haldið í ágúst. Þátttakendur voru 21. Sigurvegari í opnum flokki með forgjöf var Sigurbjörn Þorgeirsson. Golfklúbbur Ólafsfjarðar tók þátt í Sveitakeppni GSÍ bæði í karla og kvennaflokki. Sveit karla lék í 2. deild og endaði í 3. sæti og kvennasveitin lék einnig í 2. deild og endaði í 5. sæti, sem er sami árangur og fyrir ári.

Opna kvennamót GÓ var haldið í ágúst. Þátttakendur voru 34. Sigurvegari í forgjafarflokki 0-28 var Unnur Elva Hallsdóttir, GA, en í forgjafarflokki 28-40 var sigurvegari Hólmfríður Jónsdóttir, GÓ.

Mótshaldi GÓ lauk síðan 25. september með Bændaglímu. Þátttakendur voru 34. Lið Ármanns Þórðarsonar sigraði með glæsibrag.  Mótinu lauk með uppskeruhátíð Golfklúbbs Ólafsfjarðar og veglegri matarveislu. Kv. Rósa.“