Patty Berg
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 28. 2011 | 20:00

13 kvenstjörnur golfsins nr. 2: Patty Berg

Hér verður fram haldið umfjölluninni um 13 kvenstjörnur golfsins og ítrekað að listinn er langt frá því tæmandi. Reyndar vantar sumar skærustu stjörnurnar á hann eins og Lady Margaret Scott, Mrs. Charles Brown, May Hezlet , Rhonu Adair, Cecil Leitch, Joyce Wethered, Glennu Colett Vare,  Helen MacDonald, Babe Didrickson Zaharias, Louise Suggs, Mickey Wright, Kathy Whitworth, Lauru Baugh og svo að sjálfsögðu Anniku Sörenstam og þá eru aðeins fáar taldar.  Svo sem sést væri með auðveldum hætti hægt að skrifa grein um 13 allt aðrar kvenstjörnur golfsins og síðan 13 aðrar o.s.frv. Að baki þessari grein lá bara sú hugmynd að skrifa um nokkra kvenkylfinga sem voru stjörnur síðustu aldar á tímabilinu 1900-2000.  Og sú sem fjallað verður um í dag í 2. grein af 13 var það svo sannarlega: bandaríski kylfingurinn Patty Berg.

Patricia Jane Berg (alltaf nefnd Patty) fæddist 13. febrúar 1918 í Minneapolis í Minnesota í Bandarikjunum. Hún dó 10. september 2006, 88 ára að aldri. Patty Berg var atvinnumaður í golfi og einn af stofnendum LPGA og síðan með fyrstu kvenkylfingum til að spila í mótum LPGA (Ladies Professional Golf Association) á 5., 6. og 7. tug síðustu aldar. Hún vann 15 sinnum á risamótum og er methafi meðal kvenna þar, engri hefir tekist að slá risamótamet Patty.  Patty var tekin í frægðarhöll kylfinga.

Patty var í University of Minnesota og var félagi í Kappa Kappa Gamma. Hún byrjaði í golfi árið 1931, þá 13 ára, en ferill hennar sem áhugamaður hófst 1934 þegar hún vann fyrsta titil sinn það ár á Minneapolis City Championship. Hún vakti athygli um öll Bandaríkin þegar hún komst í úrslit á US Women´s Amateur, 1935 (17 ára), en tapaði fyrir Glennu Collett Vare í lokaleik Glennu, sem áhugamanns. Patty vann Titleholders mótið 1937 og sigraði áhugamannamótið 1938 í Westmoreland.

Eftir að hafa sigrað í 29 mótum sem áhugamaður gerðist Patty atvinnumaður í golfi árið 1940. Í seinni heimsstyrjöldinni var hún lieutenant í sjóhernum (ens.: Marines) 1942-1945.

Árið 1949 var hún einn af stofnendum og fyrsti forseti LPGA. Hún sigraði á vígslumóti þ.e. fyrsta US Women´s Open mótinu 1946. Patty Berg vann allt í allt 57 titla á LPGA og WPGA mótaröðunum og var í 2. sæti á mótinu í Winged Foot 1957. Hún var í 2. sæti 1956 og 1959 á LPGA Championship. Því til viðbótar sigraði Patty Western Opens mótin, árin 1953, 1957 og 1958 og Titleholders mótin árin 1955 og 1957, en litið var á bæði mótin sem risamót á þessum tíma. Síðasti sigur Patty vannst árið 1962.

Patty var kjörin kveníþróttamaður ársins af Associated Press, árin 1938, 1942 og 1955.

Árið 1963 var hún kjörin handhafi Bob Jones Award, sem er æðsta viðurkenning sem bandaríska golfsambandið (United States Golf Association) veitir fyrir íþróttamannslega framkomu í golfi. Patti Berg hlaut Old Tom Morris viðurkenninguna frá sambandi golfvallarstarfsmanna í Bandaríkjunum, en þetta er æðsta viðurkenning sem GCSAA (ens.: Golf Course Superintendents Association of America) veitir.

Árið 1978 stofnaði LPGA til Patty Berg viðurkenningarinnar og var hún í fyrsta sinn veitt árið eftir eða 1979. Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi sem hefir auðsýnt

“diplómasíu, íþróttaanda, góðvild og gefið tilbaka til golfíþróttarinnar.”

Patty Berg viðurkenninguna hafa eftirfarandi kylfingar hlotið:

▪ 1979 Marilynn Smith

▪ 1980 Betsy Rawls

▪ 1981-83 engin viðurkenning veitt

▪ 1984 Ray Volpe

▪ 1985 Dinah Shore

▪ 1986 David Foster

▪ 1987 Kathy Whitworth

▪ 1988 John D. Laupheimer

▪ 1989 engin viðurkenning veitt

▪ 1990 Patty Berg

▪ 1991 Karsten Solheim

▪ 1992 Judy Dickinson

▪ 1993 Kerry Graham

▪ 1994 Charles S. Mechem Jr.

▪ 1995 engin viðurkenning veitt

▪ 1996 Suzanne Jackson

▪ 1997 Judy Bell

▪ 1998 engin viðurkenning veitt

▪ 1999 Judy Rankin

▪ 2000 Louise Suggs

▪ 2001 Pat Bradley

▪ 2002 Patty Shehan

▪ 2003 Annika Sörenstam

▪ 2004 engin viðurkenning veitt

▪ 2005 Ty Votaw

▪ 2006 engin viðurkenning veitt

▪ 2007 engin viðurkenning veitt

▪ 2008 Dolores Hope

▪ 2009 engin viðurkenning veitt

▪ 2010 Juli Inkster

Helsti styrktaraðili Patty Berg allan feril hennar á LPGA var Joe Jemsek, eigandi hins fræga Cog Hill Golf & Country Club í Lemont, Illinois, þar sem Western Open PGA mótin fóru fram 1991 og 2006 og 3. mót FedExCup, BMW Championship, nú í september 2011.  Til þess að sjá heimasíðu Cog Hill smellið HÉR:

Patty Berg auglýsti annan golfklúbb í eiginu Jemseks: St. Andrews Golf & Country Club í Vestur Chicago, Illinois á kvennagolfmótaröðum í yfir 60 ár.

Patty sagði í viðtali við Chicagoland Golf magazine að hún hefði kennt yfir 16.000 kennslutíma á ævi sinni – en margar stundanna voru styrktar af Wilson Sporting Goods, fyrirtæki, sem er með bækistöðvar í Chicago, en golftímarnir voru nefndir “The Patty Berg Hit Parade”. Í viðtalinu kom m.a. fram að Patty teldi að hún persónulega hefði þannig komið um hálfri milljón nýrra kylfinga upp á bragðið að spila golf. Hún var ráðgjafi hjá Wilson fyrirtækinu (ens.: a member of Wilson´s Advisory Staff) í 66 ár, allt til dauðadags.

Í desember 2004 tilkynnti Patty að hún hefði verið greind með Alzheimer. Hún dó í Fort Myers 21 mánuði síðar, 88 ára gömul vegna lasleika, sem rekja mátti til Alzheimer sjúkdómsins.

Heimild: Wikipedia