Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 13. 2011 | 17:00

Viðtalið: Þorsteinn Hallgrímsson, GO & GOT

Fullt nafn: Þorsteinn Hallgrímsson.

Klúbbur: GO og GOT.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist 13. september 1969 í Vestmannaeyjum.

Hvar ertu alinn upp? Í Vestmannaeyjum – flyt frá Eyjum 1997.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Konan mín heitir Ingibjörg Valsdóttir og við eigum 2 börn Kristínu Maríu, 13 ára og Val 10 ára.  Börnin mín eru bæði klúbbmeistarar 2011 í GKJ í sínum aldursflokki.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  9 ára gamall – ég tók þátt í mínu fyrsta móti 1979 í Vestmannaeyjum.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Þetta var svona fjölskyldusjúkdómur – Pabbi spilar mikið golf og bróðir pabba – Þeir voru góðir golfarar, en eru nú komnir upp í 8 í forgjöf. Afi átti netaverkstæði í Vestmannaeyjum og pabbi og bróðir hans og 2 frændur keyptu það af foreldrum sínum 1996. Á tímabili voru margir  starfsmenn netaverkstæðisins, sem spiluðu golf og ég og Júlli bróðir þar á meðal. Við vorum þarna  8 með forgjöf 8 og undir og 6 með forgjöf 4 og undir -Það var bara  þannig – Lífið snerist um golf.

Hvað starfar þú?  Ég er rek golfverslun – (Innskot: Hole in One í Kópavogi s.s. allir vita sem eru í golfi á Íslandi!)

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvelli?  Það er fátt skemmtilegra en að spila þrönga skógarvelli, hins vegar er meiri áskorun að spila strandvelli. Þetta er algerlega sitthvor hluturinn og hefir hvort sinn sjarma.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni. Mér finnst það svona nær því sem að maður vill gera í golfi. Maður getur tekið áhættur og brennur ekki alveg eins mikið fyrir þær og í höggleik. Skemmtanagildið  er meira. En eins og í fyrri spurningunni þá hefir hvort sinn sjarma. Í höggleik þá ertu búinn að leggja niður í huganum hvernig þú ætlar spila völlinn – en í holukeppni fer það meira eftir því hvað andstæðingurinn er að gera og maður ákveður strategíuna braut frá braut. En spurningin er svona svolítið: má bjóða þér epli eða fara í járnbrautalest? En aftur: höggleikur þá er maður að spila völlinn – í holukeppni þá er það persóna, sem er andstæðingur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Vestmannaeyjar, þar er skemmtanagildið mest; Grafarholtið er mesti völlurinn okkar og Oddfellow fallegasti völlurinn.  Grafarholtið er stærst og mest – Oddurinn er svo fallegur, en Vestmannaeyjar hefir flestar skemmtilegar holur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  PGA National í Dublin á Írlandi. Þetta er svona mesti golfvöllur sem ég hef komið á. Hann er  7700 yardar af bakteigum, hann er bara krefjandi. Auðveldasta brautin, handicap 18, er 165 metra uppbyggð par-3 með 2 glompur – í annarri eru 18 hrífur. Flatirnar eru mjög hraðar og í púttkeppnum, sem ég tók þátt í þarna var verið að vinna með því að 3-pútta.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Sérstæðasti er St. Andrews Old Course – Ef það er eitthvað úník í golfi þá er það þessi völlur – Völlurinn er ekki „spectacular “ en umhverfið er þannig að það er áþreifanleg stemmning að koma þangað. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að keppa þar.

Hvað ertu með í forgjöf?  2.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  65 í Eyjum.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að verða Norðurlandameistari 1992 með íslenska landsliðinu, Íslandsmeistari 1993 og 1997 í holukeppni og svo má bæta við 8. sæti ´97 í Evrópukeppni landsliða í Portmarnock á Írlandi. Meðal þjóða, sem voru fyrir neðan okkur,  voru Englendingar með Justin Rose innanborðs.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er yfirleitt ekki með neitt með mér nema vatn eða Kristall.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, var í handbolta og fótbolta með Tý í Vestmannaeyjum – svo var ég í mikið í snóker – og eitthvað í borðtennis og skák.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er hrá nautalund; uppáhaldsdrykkurinn, segjum Pepsi Max; uppáhaldstónlistin: ég hlusta mikið á  U2 og REM, David Bowie, Uria Heap, Pink Floyd og Led Zeppelin; uppáhaldskvikmynd er  Holy Grale með Monty Python og uppáhaldsbókin er Lömbin þagna.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kven-  og 1 karlkylfing?  Kvk: Annika Sörenstam.  Kk: Bernard Langer.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Það sem er í pokanum hjá mér er eftirfarandi:  Snake Eyes dræver 10,5° með Aldila Woodoo stiff skafti, Tour Edge 13°brautartré með Aldila Woodoo og 17°Tour Edge blendingur með Fujikura Motore skafti, Mizuno MP68 með KBS stiff sköftum 3 – pw, MD Golf Wedgar Low Bounce 52°- 56°- 60° og einnig Wilson TPA pútter frá 1986. Pútterinn, Wilson TPA 1986, er uppáhaldskylfan mín – Dóttir mín var með hann í meistaramótinu.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Nei, ég hef aldrei verið hjá golfkennara . Ég var hjá þjálfurum í landsliðinu en ekki með golfkennara til að fylgjast með mér.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei. Það telst varla hjátrú að fara ekki í mót nema að merkja boltann – Það geri ég.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu? Að eiga ánægjulegar stundir á golfvellinum og styðja krakkana á vellinum.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Að halda áfram að koma fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig. Ég er glaðari ef maður kemur vel fram við aðra

Hvað finnst þér best við golfið?  Að það skuli vera einstaklingssport – það er best ef að gengur vel þá fær kylfingurinn hrósið ef gengur illa  þá þarf hann að æfa sig.

Gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Besta ráð, sem myndi henta flestum kylfingum er að sveifla hægar aftur – flestir sveifla of hratt.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Tómasi Þráinssyni, GSG),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvað er neyðarlegasta víti sem þú hefir fengið á þig?  Svar Þorsteins:  Versta vítið var í stigamóti í Grafarholtinu, þá sló ég í sandglompu á 1. braut og fór í bönkerinn hægra megin. Hann var fullur af vatni, en þú færð ekki lausn úr torfæru og því varð ég að taka á mig víti. Hann var barmafullur og þetta var ekki merkt grund  í aðgerð- Það var fúlt að byrja hringinn á því , en ….. „That´s golf!“

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Þorsteins fyrir næsta kylfing:  Áður en þú slærð ertu búin/n að sjá fyrir þér boltaflugið – taka æfingasveiflu?