Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 4. 2015 | 13:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Matthew Fitzpatrick (17/27)

Það var enski kylfingurinn Matthew Fitzpatrick sem varð í 11. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Matthew Fitzpatrick er fæddur 1. september 1994 og er því 20 ára ungur.   Hann á því sama afmælisdag og Breki Marinósson. Fitzpatrick hefir m.a. unnið sér það til frægðar að hafa komist í gegnum niðurskurð á Opna breska risamótinu 2013 og var á lægsta skori áhugamanna sem þátt tóku.  Jimmy Mullen, áhugamaður komst þetta árið einnig í gegnum niðurskurð.  Fitzpatrick hlaut því Silfurmedalíuna eftirsóttu fyrir að vera sá áhugamaðurinn á Opna breska sem var á lægsta heildarskori (Fitzpatrick var á samtals 10 yfir pari meðan Mullen var á 15 yfir pari).

Þetta ár, 2013 spilaði Fitzpatrick í 1 ár með the Northwestern Wildcats í bandaríska háskólagolfinu – en hætti í háskólagolfinu 1. janúar 2014 þ.e. fyrir u.þ.b. 1 ári til þess að gerast atvinnumaður í golfi (en tilkynningin um það kom þó ekki fyrr en eftir Opna bandaríska s.l. sumar)

Fitzpatrick sigraði á U.S. Amateur, árið 2013 og hlaut við það boð á The Masters risamótið, Opna bandaríska, og Opna breska. Við sigurinn á US Amateur varð Fitzpatrick í 1. sæti á heimslista áhugamanna en það aftur á móti varð til þess að hann hlaut Mark H. MacCormack viðurkenninguna fyrir að vera fremsti áhugamaður í heimi í karlaflokki árið 2013.  Sjá frétt Golf 1 þar um með því að SMELLA HÉR: 

Fyrsta mót sem Fitzpatrick tók þátt í á Evrópumótaröðinni var Opna írska, sem hann tók þátt í meðan hann var enn áhugamaður.

En nú er hann einn af nýju strákunum á Evróputúrnum keppnistímabilið 2014-2015 eftir glæsilegt 11. sæti sitt á lokaúrtökumótinu s.s. fyrr segir og er þar með, með keppnisrétt á einni sterkustu golfmótaröð heims!