Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 21. 2011 | 13:00

Ai Miyazato hlýtur peningatitil LET á skrítinn hátt!

Ai Miyazato fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslistanum tók aðeins þátt í 2 mótum á Evrópumótaröð kvenna á þessu ári, en engu að síður varð hún í 1. sæti á peningalista LET.

Mótin sem hún tók þátt í voru Evian Masters og Women’s British Open. Ai sigraði í Evian en náði ekki niðurskurði í Opna breska.  Peningatitilinn hlýtur hún því eftir skrítinni leið – fyrir sigur á einu móti, þar sem verðlaunaféð er langhæst af öllum mótum kvennagolfsins eða $487,500. Bara með sigri á þessu 1 móti náði hún auðveldlega að hrifsa til sín 1. sæti peningalistans á undan þeim  Melissu Reid, sem varð í 2. sæti  og nýliðanum Caroline Hedwall, sem varð í 3. sæti.

Mel Reid sigraði 2 sinnum í þeim 19 mótum sem hún tók þátt í á LET og Caroline Hedwall vann 4 sinnum í 20 mótum, sem hún tók þátt í.

„Ef ég á að segja satt þá er ég með blendnar tilfinningar vegna þess að ég tek við verðlaununum bara fyrir að sigra 1 mót á LET,“ sagði Ai. „En ég hef aldrei unnið peningatitil á neinni mótaröð, þannig að ég er virkilega ánægð.“

LET gerir enga kröfu um lágmarksfjölda móta sem spila þarf til þess að gerast félagi á LET. Og þarna verður það fyrst verulega furðulegt.

Yani Tseng vildi nefnilega ekki vera félagi á LET á þessu ári, annars hefði hún hlotið peningatitilinn…. auðveldlega. Tseng sem er nr. 1 á Rolex-heimslistanum vann nefnilega 4 af 5 mótum sem hún spilaði á, á LET: Hún vann Women’s Australian Open og the Australian Masters  í byrjun árs. Hún náði að sigra á Women’s British Open í Carnoustie, 2. árið í röð og svo sigraði hún á  Suzhou Taihu Ladies Open í Kína. Ef hún hefði verið félagi í LET hefði hún unnið peningatitilinn með $160,000 mun á Ai Miyazato.

Yani varð hins vegar í 1. sæti á peningalista LPGA með $ 2.9 milljónir í tekjur, sem er meira en næstu tveir á eftir henni hlutu samanlagt.

Ernie Huang, umboðsmaður Tseng í Kaliforníu sagði að Tseng hefði sjálfkrafa þátttökurétt á LET, þar sem hún vann Women´s British Open í ár og í fyrra.

„Hún kaus að gerast ekki félagi á LET,“ sagði hann. „Einhverra hluta vegna vill hún ekki vera félagi þar. Kannski skiptir hún um skoðun síðar.“

Luke Donald vann peningatitilanna bæði á Evróputúrnum og PGA fyrstur allra á sama árinu (þ.e. í ár – 2011) og báðar mótaraðir gera kröfur um lágmarksfjölda móta sem spila þarf til þess að hljóta titilinn – PGA 15 – Evróputúrinn 13.

Það er hálffarsakennt að LET skuli ekki vera með svipaðar reglur. Það sem gerir allt verra er að verðlaunfé í Evian Masters (sem verður risamót 2013) og verðlaunafé á Women´s British Open mótinu eru svo miklu hærri en á öðrum mótum LET.

Verðlaunaféð sem Caroline Hedwall vann sér inn í 4 mótum er ekki einu sinni 1/3 af sigurlaunum fyrir sigur á Evian Masters.

„Það er skammarlegt að það skuli vera svona því maður ætti að eiga að þurfa að spila vissan fjölda móta“ sagði Laura Davies. „Ég veit að Ai spilaði aðeins í 2 mótum og hún hlýtur 1. sætið á peningalistanum. Þetta er svolítið fáranlegt.  […] Það er skömm að eitt mót geti gnæft  svona yfir öllum hinum mótunum.“

LPGA telur ekki US Women´s Open – stærsta mótið með hæsta verðlaunaféð til stiga fyrir þá sem eru ekki félagar á LPGA vegna þess að verðlaunaféð er svo út úr kortinu miðað við það sem fæst á öðrum mótum. Það var þess vegna sem Stacy Lewis hlaut ekki sjálfkrafa kortið sitt þegar hún varð í 3. sæti á US Women´s Open 2008.

Það er ekki meiri munur á verðlaunafé milli móta á nokkurri ánnarri mótaröð, sem á LET.

Á LET mótadagskránni, sem birtist í gær (þriðjudaginn 20. desember) eru 15 mót, þar sem allt samanlagt verðlaunafé er litlu meira en  $6 milljón. 3 önnur mót sem eru haldin í samvinnu við LPGA – the Women’s Australian Open, the Evian Masters og the Women’s British Open – eru með verðlaunafé upp á $7 milljónir.

Heimild: Golf Digest