Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 24. 2011 | 12:00

Viðtalið: Signý Arnórsdóttir, GK – stigameistari GSÍ 2011

Viðtalið í dag, aðfangadag, er við stigameistara GSÍ 2011 og afrekskylfing GK.  Signýju Arnórsdóttur, Signý spilaði í bandaríska háskólagolfinu á síðasta ári en tekur sér hvíld frá því, þennan vetur. Framtíðina í golfinu segir hún óráðna. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Signý Arnórsdóttir.

Klúbbur: GK.

Hvar og hvenær fæddistu?    Í Reykjavík, 9. september 1990.

Hvar ertu alin upp?  Ég átti heima í 5 ár í Danmörku og síðan hérna í Hafnarfirðinum. Ég er Hafnfirðingur.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?  Ég bý heima hjá pabba og mömmu og á tvo bræður. Sá eldri er aðeins að fikta – Hann æfir ekki – þetta er bara áhugamál hjá honum. Rúnar bróðir minn er frábær.  Pabbi prófaði og þykist vera á leiðinni út á völl, en mamma hefir aldrei komið sér í þetta.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði að fara út á völl 13 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Rúnar, bróðir minn, eyddi öllum sínum stundum hérna á Hvaleyrinni og eitt sumarið dróst ég með honum. Ég byrjaði á að pútta og eftir 1 mánuð ákvað ég að fara á æfingar.

Hvað starfar þú?  Ég er nemi í kennaraháskólanum.

Nú varstu  í bandaríska háskólagolfinu – í hvaða háskóla varstu?  Troy Univerity í Alabama.

Er munur á þjálfurunum úti og hér á landi, ef svo er hver er hann? Minn þjálfari úti var bara golfari og gat ekkert hjálpað okkur stelpunum tæknilega. Það er erfitt að verða betri golfari nema að vera með góðan þjálfara.

Hvað fór mikill tími í æfingar á dag hjá þér úti?   Þrjá daga fór ég í ræktina snemma um morguninn – skólinn var auðveldur og svo voru æfingar eftir hádegi alla daga nema miðvikudaga. Á miðvikudagseftirmiðdögum vorum við í jóga.  Ég finn ekki að eitthvað eitt hjálpi manni umfram annað en það (jóga-ið) hefir örugglega hjálpað að liðka mann og ræktin gerði mikið.

Voru mikil viðbrigði að koma til Bandaríkjanna frá Íslandi? Já.

Hvað helst? Allt í einu var enginn Rúnar, allar vinkonur mínar voru ekki; þetta var þvílík breyting… en ég eignaðist líka marga nýja, góða vini.

Er mikill munur á völlunum í Bandaríkjunum og hér á Íslandi? Vellirnir hér eru mjög góðir þegar líður á sumrið. Þeir eru vel hannaðir, en hér er ekki boðið upp á skógarvelli á við Bandaríkin og flatirnar eru ekki eins góðar hér.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Strandvelli, t.d. völlinn á Suðurnesjunum á Íslandsmótinu í höggleik. Þar var gaman meðan greenin tóku við, eftir að rigndi voru greenin aðeins mýkri en á þriðjudaginn stoppaði ekkert og það var hundleiðinlegt.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni, því mér hefir gengið vel í holukeppni. Það myndast allt öðruvísi hugsun – klúður kemur ekki niður á næstu holum – það má taka áhættu og það er gaman.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Hvaleyrin er alltaf skemmtileg – en fyrir utan hana er það Garðavöllur á Akranesi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Það er Shoals Musle í Alabama.

Hvað ertu með í forgjöf?  1,2.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Það eru 68 högg í Þorlákshöfn.

Hvert er lengsta drævið þitt?  290 metra með 5 tré .

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Íslandsmeistarinn í holukeppni 2009 – það sumar vann ég 3 mót af 6 og þá varð ég stigameistari og síðan stigameistaratitillinn 2011.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Pabbi smyr samlokur með grænmeti og eggjum og svo er ég yfirleitt með ávexti.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Ég hef æft allt, ég var aðllega í fótbolta í 8 ár með FH, en svo þurfti  ég að velja á milli.

Af hverju valdirðu golf? Ég veit ekki. Mér gekk bara vel. Ætli ég sé ekki meiri einstaklingsíþróttamaður.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Mamma mín gerir rosalega góða grænmetisbökusvo er ég hrifin af pastaréttum; uppáhaldsdrykkurinn er kók; Ég hlusta mjög mikið á það sem er spilað á FM 95,7; uppáhaldskvikmyndin er Notting Hill og uppáhaldsbókin: Harry Potter.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:   Engin.     Kk: Tiger Woods var alltaf uppáhaldskylfingurinn minn, en ég missti smá virðingu fyrir honum en hann er nú  vonandi að ná tökum á sínum málum.

Hvað er í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?   Í pokanum hjá mér er allt Nike, frá pútter til drævers, golfkúlur, tí og eitthvað skemmtilegt. Uppáhaldskylfurnar eru allir wedgarnir mínir.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, hjá nokkrum, Bjögga og Sigga Palla.  Þeir eru stærstir í mínum golfferli. Síðan hef ég verið hjá Herði Hinrik Arnarsyni og svo þeim sem hafa verið með landsliðið, Ragnari Ólafssyni og Kalla á Akranesi – hann er frábær.

Ertu hjátrúarfull? Nei, ég myndi ekki segja það.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Meginmarkmið í golfinu: já eins og er, er atvinnumennskan ekki á – en við verðum að sjá til – ég ætla að vera dugleg að æfa í vetur. Meginmarkmiðið í lífinu er að lifa heilbrigðu lífi og gera ekki neitt sem ég sé rosalega eftir – vonandi eignast ég fjölskyldu.

Hvað finnst þér best við golfið?  Hversu góður félagsskapur  þetta er og góð hreyfing. Það er allt gott við golf.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Ég hef ekki mikið verið að hugsa um andlega þáttinn, en hann er  örugglega a.m.k. 50%. dagskrá

Er eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Ef þig langar til að vera góður þarf að æfa og setja sér góð markmið.

Að síðustu:

Spurning frá fyrri kylfingi (Davíð Gunnlaugssyni, GKJ) Hvað eru flestir fuglar sem þú hefir fengið á hring og á hvaða hring var það?

Ég hef flest fengið 7 fugla á 68 hringnum mínum Íslandsmóti í holukeppni unglinga.