Viðtalið: Guðmundur og Guðjón – Golfklúbbur Öndverðarness
Viðtalið í dag er við tvo í stjórn Golfklúbbs Öndverðarness (GÖ), þá Guðmund, formann og Guðjón, ritara klúbbsins. Hér fer viðtalið:
Fullt nöfn: Guðjón Sigurður Snæbjörnsson og Guðmundur Ebenezer Hallsteinsson.
Klúbbur: GÖ.
Hvar og hvenær fæddust þið?
Guðjón: Ég fæddist á Raufarhöfn 27. apríl 1955.
Guðmundur: Ég er fæddur á Akranesi, 3. janúar 1956.
Hvar eruð þið aldir upp?
Guðjón: Ég ólst upp á Raufarhöfn til 17 ára aldurs, fluttist síðan til Reykjavíkur og svo í Hafnarfjörðinn.
Guðmundur: Ég var á Akranesi til 7 ára aldurs og ólst svo upp í Laugarnesinu; Bugðulæk nánar tiltekið.
Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?
Guðjón: Ég er kvæntur Soffíu Björnsdóttur og við eigum 4 börn, sem öll eru í golfi. Soffía konan mín er líka í GÖ.
Guðmundur: Ég er kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur, sem er í GK og við eigum 3 börn, en þau eru ekki öll í golfi, hafa spilað golf mismikið en enda þar öll aftur.
Hvenær byrjuðuð þið í golfi?
Guðjón: Það var árið 1986 – en þá vorum við komin með bústað hér og ég byrjaði í golfi um það leyti.
Guðmundur: Ég byrja árið 1982 í golfi.
Hvað varð til þess að þið byrjuðuð í golfi?
Guðjón: Umhverfið og samfélagið hér í Öndverðarnesinu, því það voru flestir í golfi, sem voru hérna.
Guðmundur: Það er bara þetta svæði. Ég byggði mér sumarhúsið í tengslum við golfið hér. Þetta var bara eitthvað, sem manni langaði í.
Hvað starfið þið? Guðjón og Guðmundur: Við erum báðir múrarameistarar.
Hvort líkar ykkur betur við skógar- eða strandvelli?
Guðjón: Ég er meira fyrir skógarvelli því þar er meira skjól og logn. En þeir fara líka stundum meira í taugarnar á manni ef maður er ekki beinn og er stöðugum eltingarleik við boltann út í skóg.
Guðmundur: Ég er meiri skógarvallarmaður. Maður fær nóg af vindinum á Íslandi.
Hvort líkar ykkur betur holukeppni eða höggleikur?
Guðjón: Höggleikur, vegna þess að maður verður að vera einbeittur í gegnum leikinn getur ekki tekið sjénsa. Í höggleik verður maður að vera öruggur á því en það er hægt að vera kærulausari í holukeppni.
Guðmundur: Höggleikur. Þegar maður byrjaði, þá var ekkert annað. Hann er meira krefjandi en holukeppnin.
Hverjir eru uppáhaldsgolfvellirnir ykkar á Íslandi?
Guðjón: Öndverðarnesið. Þetta er að verða einn af bestu völlunum.
Guðmundur: Ég tek undir það – Öndverðarnesið. Maður spilar mest hérna, hér spila ég 80% af mínu golfi.
Hverjir eru uppáhaldsgolfvellirnir ykkar hvar sem er í heiminum?
Guðjón: Það er Campoamor Las Colinas, í Alicante, á Spáni. Hann er flottur. Þetta er einn af bestu völlunum, sem maður hefir komið á. (Innskot: Golf 1 tekur undir það, enda Las Colinas einn af 100 bestu völlum Evrópu, þó hann sé aðeins 1 árs gamall – Sjá má myndaseríu frá Las Colinas, með því að smella hér: CAMPOAMOR LAS COLINAS)
Guðmundur: Gleneagles á Skotlandi. Ég hef spilað hann einu sinni og í minningunni er hann í mestu uppáhaldi. (Innskot: Þetta er mjög klassískt val hjá formanni GÖ; Centenary Course, Kings eða Queens Course á Gleneagles hljóta að vera í uppáhaldi hjá öllum, sem þar hafa spilað. Til þess að fá smá innsýn má skoða heimasíðu Gleneagles með því að smella hér: GLENEAGLES Í SKOTLANDI)
Hverjir eru sérstæðustu golfvellir, sem þið hafið spilað á og af hverju?
Guðjón: Það er einn, sem er rétt fyrir utan Glasgow. Í upphafi var hann hannaður þannig að það voru 365 bönkerar á honum (einn fyrir hvern dag ársins). Síðan voru gerðar breytingar á honum og nú eru „bara“ 200 bönkerar, t.a.m. 16 í kringum greeenið á 18. Þeir eru 2 m háir. Klúbbfélagar greiða 1.000.0000 krónur í ársgjald. Þarna er líka mikið og gamalt klúbbhús. Já, þetta er einn sérstæðasti golfvöllur, sem ég hef komið á.
Guðmundur: Sanctiuary Ridge (Orlando) landslagið mjög sérkennilegt – hæðótt – mikið af bönkurum – fjölbreyttar brautir á svæðinu. (Innskot: Sjá má umsögn um golfvöllinn, sem svo sannarlega er mjög sérkennilegur af golfvelli í Flórída að vera með því að smella HÉR: )
Hvað eruð þið með í forgjöf?
Guðjón: 11,3
Guðmundur: 10,2
Hver eru lægstu skorin ykkar í golfi og hvar/á hvaða velli náðuð þið því?
Guðjón: Lægsta skorið mitt var í Öndverðarnesinu þegar ég var á 39 höggum á 9 holum – 78 högg á 18.
Guðmundur: Ég á best 71 í Öndverðarnesinu.
Hver eru helstu afrekin ykkar til dagsins í dag í golfinu?
Guðjón: Hola í höggi á 2. braut í Öndverðarnesinu. Hún var reyndar 11. braut þá (fyrir 4-5 árum síðan) og 2 ernir.
Guðmundur: Ég hef nokkrum sinnum fengið erni (m.a. á 15. braut á Hvaleyrinni og 16. braut hér í Öndverðarnesinu).
Hvaða nesti eruð þið með í pokanum?
Guðjón: Ég er með banana, samloku og vatn.
Guðmundur: Ég er með orkudrykk, samloku og banana.
Hafið þið tekið þátt í öðrum íþróttum?
Guðjón: Á yngri árum var ég í nánast öllu. Frjálsum, fótbolta spilaði ég með Austra heima á Raufarhöfn og með FH í Hafnarfirði.
Guðmundur: Ég spilaði körfubolta og fótbolta með Fram frá 7 ára -22 ára. Ég var meðal stofnenda körfuboltadeildar Fram.
Hver er uppáhaldsmaturinn ykkar, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?
Guðjón: Uppáhaldsmaturinn minn, það er ekki flókið einfaldlega humar og nautasteik; vatn er alltaf best; uppáhaldstónlistin er gamla góða rokkið og karlakóramúsik er mitt aðaluppáhald og má ekki að sleppa því að nefna það; uppáhaldskvikmyndin mín er sú sama og uppáhaldsbókin Gaukshreiðrið.
Guðmundur: Uppáhaldsmaturinn minn er lambakjöt; ég er kókisti; uppáhaldstónlistin er Rock and Roll, Deep Purple og Urea Heap og Rammstein; uppáhaldskvikmyndin er ekki einhver ein, í sjálfu sér á ég mjög margar, en er mest fyrir léttar ævintýramyndir t.d. „Lord of the Rings”; loks er uppáhaldsbókin „The Da Vinci Code.“
Hverjir eru uppáhaldskylfingur ykkar nefnið 1 kvenkylfing og1 karlkylfing?
Guðjón: Kk: Phil Mickelson er mitt idol og hefir alltaf verið. Kvk: Annika Sörenstam.
Guðmundur: Kvk.: Annika Sörenstam og kk: Nick Faldo.
Hvað er í pokanum hjá ykkur og hver er uppáhaldskylfan ykkar?
Guðjón: Yfirleitt er ég með 14 vopn, kúlurnar mínar og nesti. Uppáhaldskylfan er dræverinn, þegar hann virkar, annars er wedge-inn líka mitt uppáhaldsverkfæri.
Guðmundur: Ég er með allar þær kylfur sem ég má vera með og þær eru allar frá Mizuno, nema ég er með PING G15 dræver og 3-5 tré í Cobra og pútterinn er Ping Crazee. Uppáhaldskylfan mín er pitchingwedge.
Hafið þið verið hjá golfkennara?
Guðjón: Já, ég er búinn að koma við hjá nokkrum, en hef ekki notað þá mikið. Ég hef verið hjá Bjögga og hér á árum áður Úlfari.
Guðmundur Fyrsti golfkennarinn minn var John Nolan í Grafarholtinu. Síðan var ég hjá Þorvaldi í Keili, Hörður Arnars hefir skoðað mig og Arnar Már – ég dró m.a. fyrir hann, en það er svo langt síðan, það var í Keflavík í sveitakeppni.
Eruð þið hjátrúarfullir?
Guðjón: Ég er eiginlega alveg laus við það. Það kemur stundum fyrir að ég skipti um bolta þegar illa gengur og tel að það muni leysa álögin, þ.e. slæmi kaflinn hverfi við nýjan bolta… mér finnst það hafa virkað.
Guðmundur: Ég tel mig ekki vera með neina hjátrú… ég lendi í vandræðum ef ég skipti um kylfur og bregð út af því sem ég er vanur.
Hvert er meginmarkmið ykkar í golfinu?
Guðjón: Að vera í góðum félagsskap, að vera með vinum, þetta er fyrst og fremst heilsubót og útivera í einstöku samfélagi hér í Öndverðarnesinu.
Guðmundur: Meginmarkmiðið er bara að reyna að bæta sig. Þetta er góður félagsskapur, það er gott að við spilum bæði hjónin og njótum útivistar saman og nauðsynleg hreyfing fyrir mig.
Hver er meginmarkmið ykkar í lífinu?
Guðjón: Að lifa heilbrigðu lífi og njóta lífsins og að manni líði vel og þeim, sem eru í kringum mann.
Guðmundur: Að nota það sem er í boði og njóta þess sem er, því maður veit aldrei hvenær kallið kemur ,sér það meira þegar maður sér félagana hverfa – Maður verður einfaldlega að njóta þess (lífsins) meðan maður getur.
Hvað finnst ykkur best við golfið?
Guðjón: Samveran við annað fólk og félagsskapurinn.
Guðmundur: Félagsskapurinn, sérstaklega hér í Öndverðarnesi.
Eitthvað gott ráð sem þið getið gefið kylfingum?
Guðjón: Að taka tillit til meðspilarans og virða reglur.
Guðmundur: Að taka tillit til meðspilara sinna og muna að þó manni gangi illa einn daginn, þá kemur alltaf góður dagur seinna.
Að síðustu:
Spurning frá fyrri kylfingi sem var í viðtali hjá Golf1 (Ágústu Sveinsdóttur, GK):
Hvað (ertu) eruð þið að hugsa þegar (þú ) þið (tekur) takið æfingasveiflu?
Guðjón: Ég hugsa alltaf um að hitta boltann rétt.
Guðjón: Ég reyna að tæma hugann og hugsa ekkert. Ég tek æfingasveiflu, en það er bara til að vekja skrokkinn og ná úr mér stirðleik – það snýst fyrst og fremst um það.
Getið þið komið með spurningu fyrir næsta kylfing?
Spurning Guðjóns og Guðmundar: Hefir þú spilað Öndverðarnesið?
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024