Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 20. 2017 | 06:00

Gísli Sveinbergs á 64 og í efsta sæti e. 1. dag Opna breska áhugamannamótsins

Þrír íslenskir kylfingar taka þátt í Opna breska áhugamannamótinu: Gísli Sveinbergsson, Henning Darri Þórðarson og Rúnar Arnórsson; allir úr Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði.

Mótið fer fram á tveimur golfvöllum: Royal St. Georges og Prince golfvöllunum í Kent og stendur dagana 19.-22. júní 2017.

Leikfyrirkomulag er þannig að fyrstu tvo dagana er spilaður höggleikur og komast 64 efstu í lokaeinvígi keppninnar síðustu tvo dagana, þar sem spiluð er holukeppni.

Þátttakendur í mótinu eru 288 frá 40 þjóðríkjum.

Gísli Sveinbergsson, GK, er í efsta sæti á Opna breska áhugamannamótinu eftir 1. keppnisdag – sem er virkilega stórglæsilegt!!!

Hann lék 1. hring á frábærum 8 undir pari, 64 höggum; skilaði skollalausu, meiriháttar skorkorti með 8 fuglum og 10 pörum.

Henning Darri er T-118 á 1 yfir pari, 73 höggum – Rúnar er T-242 á 5 yfir pari, 77 höggum.

Sigurvegari í Opna breska áhugamannamótinu hlýtur þátttökurétt á Opna breska risamótinu á Royal Birkdale, sem fram fer 16.-23. júlí n.k.

Sjá má stöðuna á Opna breska áhugamannamótinu með því að SMELLA HÉR: 

Sjá má myndskeið þar sem sagt er frá því að Gísli hafi sett vallarmet á The Princes vellinum með því að SMELLA HÉR: