Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 25. 2017 | 10:00

LPGA: Ko spilar á LPGA 2018

Spilar Ko ekki nú þegar á LPGA kynni einhver að spyrja sig?  Jú, vissulega er það rétt. Fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna (sem nú er dottin niður í 9. sætið), Lydia Ko, spilar á bestu mótaröð heims, LPGA.

Sú sem átt er við er Jin Young Ko frá Suður-Kóreu, sem verið hefir að slá í gegn síðustu misserin.

JY Ko er e.t.v. best þekkt fyrir 2. sætið sem hún náði á Opna breska kvenrisamótinu 2015 en einnig nældi hún sér í sinn fyrsta titil á LPGA í síðasta mánuði þ.e. á KEB Hana Bank Championship og það veitir henni keppnisrétt á LPGA 2018, sem hún hefir nú ákveðið að nýta sér.

Það hefir verið draumur minn frá því ég var ung að spila á (bandaríska) LPGA og ég hlakka til að sjá hvernig ég stend mig gegn bestu kvenkylfingum heims,“ sagði Ko í skilaboðum, sem hún sendi stjórnendum vefsíðu LPGA.

Ég veit að þetta á eftir að vera erfitt, en að ná fyrsta sigrinum sem félagi á LPGA og að sigra Rolex nýliðaverlaunin eru tvö stærstu markmiðin, sem ég myndi vilja ná á næsta ári.“

Sumum finnst JY Ko taka stórt upp í sig en á það ber að líta að hún er, þrátt fyrir ungan aldur, tífaldur sigurvegari á kóreanska LPGA, þaðan sem margir af bestu kvenkylfingum heims koma.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari Ko á næsta ári!