Ragnheiður Jónsdóttir | október. 25. 2018 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Roberto Castro (2/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Fyrst verður byrjað að kynna þá 25 sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og verður nú kynntur sá sem varð í 24. sæti peningalistans, Roberto Castro.  Eftir að efstu 25 á peningalista Web.com Tour hafa verið kynntir verða þeir 25 kynntir sem urðu efstir á Web.com Finals.

Roberto Castro fæddist í Houston, Texas 23. júní 1985 og er því 33 ára. Foreldrar hans eru Annie og Alberto Castro, en faðir hans er frá Perú og móðir hans frá Puerto Rico. Castro er frændi fyrrum LPGA kylfingsins Jenny Lidback.  Hann á tvo yngri bræður sem báðir voru/eru í bandaríska háskólagolfinu: Alex Castro sem spilaði með Georgia State University 2007-2011 og yngsti bróðirinn Franco sem er að byrja ferilinn með LSU.   Roberto Castro kvæntist 2013 konu sinni Katie, en þau búa í Atlanta, Georgia með tveimur dætrum sínum. Roberto er þar félagi í Ansley golfklúbbnum.

Roberto var í Milton High School en lék síðan í bandaríska háskólgolfinu með  Georgia Institute of Technology. Meðan Roberto var í Georgia Tech fékk hann margar heiðursútnefningar t.a.m. first-team All-American árið 2005, second-team All-American árið 2007 og honorable mention All-American árin 2004 og 2006.Hann var útnefndur í All-Atlantic Coast Conference (ACC) liðið á hverju ári af þeim 4 árum sem hann var í háskóla og var útnefdur ACC nýliði ársins 2004.  Hann vann 1 sinni í eintstaklingskeppni á háskólaárum sínum þ.e. 2007 á Puerto Rico Classic. Hann vann Byron Nelson award árið 2007, sem veitt er besta kylfingi meðal efstubekkinga í bandaríska háskólagolfinu.

Árið 2005 var Roberto Castro fyrirliði bandaríska liðsins í Palmer Cup sem vann lið Evrópu 14-10. Hann var einnig í 2006 liðinu sem tapaði fyrir Evrópu 19 1/2 – 4 1/2.

Árið 2008 hlaut Roberto Castro hin virtu  NCAA Top VIII Award.

Atvinnumannsferill Roberto Castro

Castro spilaði á eGolf Professional Tour á árunum 2007 til 2010 og vann þar 5 sinnum. Hann spilaði í 12 mótum á Nationwide Tour árið 2010 og náði m.a. að verða í 2. sæti á the Preferred Health Systems Wichita Open. Hann var í fyrsta sinn fullt keppnistímabil á  Nationwide Tour árið 2011, þar sem hann varð í 23. sæti á peningalistanum, sem dugði til þess að hann fékk kortið sitt á PGA Tour í fyrsta sinn fyrir 2012 keppnistímabilið. Hann varð einnig í 13. sæti í Q-school sem bætti stöðu hans.

Þann 9. maí 2013 var Roberto Castro á 63 höggum á 1. degi  The Players Championship og jafnaði vallarmet Fred Couples  (1992) og Greg Norman (1994). Besta árangri sínum á PGA Tour náði hann í júní 2013, þegar hann varð í 2. sæti á 3 höggum á eftir Bill Haas á AT&T National. Hann varð í 2. sæti aftur  2016 eftir að tapa í bráðabana á  Wells Fargo Championship fyrir James Hahn. Árið 2018 spilaði Roberto Castro á Web.com Tour og náði 5 sinnum að vera meðal efstu 10 í mótum á tímabilinu, sem dugði til þess að hann nældi sér í 24. sætið í peningalistanum eftir reglulegt keppnistímabil og er því aftur kominn á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019.

Roberto Castro er 1,8 m á hæð og 76 kg.