Ragnheiður Jónsdóttir | október. 31. 2018 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Joey Garber (7/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Fyrst verður byrjað að kynna þá 25 sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og verður nú kynntur sá sem varð í 19. sæti peningalistans, Joey Garber. Eftir að efstu 25 á peningalista Web.com Tour hafa verið kynntir verða þeir 25 kynntir sem urðu efstir á Web.com Finals.

Joey Garber fæddist 29. ágúst 1991 í Peteosky í Michigan og er því 27 ára.

Garber á tvo eldri bræður og ólst upp við að vera í flest öllum íþróttum. Honum þótti t.a.m. mjög gaman í fótbolta og á skíðum og hann var í miðjum æfingum til þess að taka þátt í Ólympíuleikum ungmenna á skíðum þegar hann hætti og einbeitti sér að golfinu 13 ára.

Hann var í bandaríska háskólgolfinu og lék með liði University of Georgia, en þaðan útskrifaðist hann 2014 og gerðist atvinnumaður í golfi.

Í dag býr hann á St. Simons eyju í Georgíu og er þar í Sea Island golfklúbbnum.

Garber tekur þátt í uppbyggingu á The First Tee of the Golden Isles og í heimabæ sínum St. Simons.

Garber er frábær í Scrabble leiknum.

Meðal hjátrúar á golfvellinum er að hann notar alltaf 25 cent til þess merkja bolta sinn og skiptir um hlið á peningnum ef hann missir pútt.

Garber sigraði 1 sinni á 2017-2018 keppnistímabili Web. com Tour og varð þrívegis meðal efstu 10 í mótum mótaraðarinnar, en það tryggði honum eins og segir 19. sætið á peningalista mótaraðarinnar sem varð til þess að hann hlaut sjálfkrafa þátttökurétt á mótaröð þeirar bestu PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019.