Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2018 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Martin Trainer (22/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Fyrst verður byrjað að kynna þá 25 sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og verður nú kynntur sá sem varð í 4. sæti peningalistans, Martin Trainer frá Bandaríkjunum. Eftir að efstu 25 á peningalista Web.com Tour hafa verið kynntir verða þeir 25 kynntir sem urðu efstir á Web.com Finals.

Martin Trainer fæddist í Marseille, Frakklandi og er 27 ára. Pabbi hans er amerískur en mamma hans frönsk.

Trainer lék í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Southern California, þaðan sem hann útskrifaðist 2013 með gráðu í viðskiptafræði (Business Administration).

Eftir útskrift gerðist Trainer atvinnumaður í golfi, þ.e. 2013.

Á 2018 keppnistímabilinu sigraði Trainer tvívegis á Web.com Tour og varð það til þess að hann varð í 4. sæti peningalistans og er kominn með kortið sitt á PGA Tour 2019.

Sem stendur er Trainer nr. 295 á heimslistanum.

Meðal áhugamála Trainer er að hjóla og gönguferðir auk þess að stúdera gamanmyndir. Hann vill gjarnan búa til golf-gamanmynd.

Uppáhaldslið Trainer eru San Francisco liðin:  the 49ers, Warriors og Giants.