Krista og Lucas Glover
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2019 | 17:00

Eiginkona Glover þarf ekki í fangelsi

Krista Glover, eiginkona PGA Tour kylfingsins Lucas Glover, þarf ekki fyrir rétt né í fangelsi eftir að hafa verið handtekin á síðasta ári fyrir heimilisofbeldi og fyrir að sýna mótþróa við handtöku.

Krista verður að halda samkomulag við ákæruvald þ.e. er á einskonar 12 mánaða skilorði þar sem henni ber að inna af hendi 25 tíma af samfélagsþjónustu auk þess sem hún verður að gangast undir eiturefna- og geðheilsumat, sbr. frétt í The Daily Mail sl. föstudag.

Krista Glover var handtekin 12. maí á síðasta ári eftir 3. hring Lucas Glover á The Players Championship, sem er flaggskipsmót PGA Tour.

Eftir að hafa átt slæman dag með hring upp á 78 högg og eftir að hafa misst af því að komast í gegnum 2. niðurskurð; klikkaðist Krista og fór að uppnefna eiginmann sinn og á m.a . að hafa hótað „ það væri eins gott fyrir hann að fara að sigra eða hún og börnin myndu fara frá honum og hann myndi aldrei sjá börnin aftur.“

Svo þróaðist þessi leiðinda framkoma Kristu í handlögmál hennar við Lucas og móður hans, Hershey Glover, sem endaði með handtöku Kristu í Jupiter, Flórída.

Þar var atvikið bókað af lögreglu sem heimilisofbeldi en henni var sleppt eftir að greiddar höfðu verið fyrir hana  $2,500 á St. John’s County Sheriff’s Office, skv. heimildum Heavy.com.

Lucas Glover tjáði lögreglu að þegar sér gengi illa kallaði hún sig „loser” og „a “p***y”og hótaði að taka börnin frá sér.

Krista hafði verið að drekka og var með þennan hamagang frammi fyrir börnunum; Lucas bað hana að hætta þessu og fara með börnin í rúmið. Hann fór á veröndina í húsi þeirra til þess að róa sig niður en Krista elti hann og „hóf að beita líkamlegu ofbeldi, sem olli honum sári á handlegg.“ Móðir Lucas, Hershey blandaði sér einnig í handalögmálin og meiddist.

Eftir að honum var tjáð af lögreglu að eiginkona hans yrði handtekinn reyndi Lucas að breyta framburði sínum og sagði að engin handalögmál hefðu átt sér stað. Í lögregluskýrslu kom fram að Krista Lucas hefði veitt mótstöðu við handtökuna, m.a. sparkað í lögreglubílinn þannig að hún olli skemmdum á honum, hún skammaðist í lögreglumönnunum og hótaði þeim að þeir myndu missa störf sín fyrir að handtaka sig.

Lucas Glover gaf frá sér fréttatilkynningu á Twitter nokkrum dögum eftir atvikið og sagði að Krista hefði ekki ráðist á sig eða móður hans og að hann væri viss um að hún myndi verða sýknuð af kerfinu. Hann bað líka um að einkalíf þeirra yrði virt meðan þau ynnu sig út „þessum ólukkans atburði.“

Lucas Glover, 39 ára og eiginkona hans eiga 2 börn, dóttur sem varð 5 ára sl. mánudag (f. 14. janúar 2014) og 2 ára son. Lucas gerðist atvinnumaður 2001 og hefir sigrað þrívegis á PGA Tour, þ.á.m. á Opna bandaríska 2009 á Bethpage Black. Síðasti sigur Lucas Glover kom 2011 á Wells Fargo Championship í Quail Hollow.