Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 16. 2019 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2019: Nick Cullen (15/27)

Golf 1 hefir á undanförnum árum kynnt „nýju strákana“ á Evróputúrnum og verður því fram haldið hér.

Lokaúrtökumótið í ár fór fram á Lumine golfstaðnum í Tarragona, nálægt Barcelona á Spáni, dagana 10.-15. nóvember 2018 og voru að venju spilaðir 6 hringir.

Efstu 25 og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu hlutu kortið sitt á Evróputúrnum. Í ár voru það 27 sem hlutu kortið sitt á Evróputúrnum.

Líkt og á undanförnum árum verður hafist á að kynna þá sem urðu í síðustu sætunum fyrst og endað á þeim sem sigruðu í Q-school þ.e. urðu efstir í lokaúrtökumótinu.

Í ár deildu 8 strákar 20. sætinu og komust því 27 „nýir strákar“ á Evróputúrinn í ár gegnum lokaúrtökumótið. Einn þeirra sem ekki komst að þessu sinni, þrátt fyrir frábæra spilamennsku var Birgir Leifur „okkar“ Hafþórsson, GKG.

Þeir 8 sem deildu 20. sætinu, þ.e. urðu T-20 hafa nú allir verið kynntir en það eru: Kristian Krogh Johannessen, Filippo Bergamaschi, David Borda, Max Schmitt, Hugo León, Ben Evans, Kristoffer Reitan og Gavin Moynihan. Eins hefir sá verið kynntur sem einn hafnaði í 19. sæti en það var skoski kylfingurinn Marc Warren.

Sex kylfingar deildu 13. sætinu en það eru enski kylfingurinn Daníel Gavins, áströlsku kylfingarnir Deyen Lawson og Nick Cullen, Guido Migliozzi frá Ítalíu, Per Längfors frá Svíþjóð og Louis de Jager frá S-Afríku. Þeir hafa nú allir verið kynntir nema Nick Cullen, sem kynntur verður í dag.

Nick Cullen fæddist 10. apríl 1984 í Adelaide, Ástralíu og er því 34 ára.

Cullen er 1,84 m á hæð og 77 kg.

Hann spilaði á Ástralasíutúrnum og Áskorendamótaröð Evrópu og spilaði þar áður á kanadíska PGA.

Cullen var í University of South Australía.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2009.

Árið 2010 spilaði hann á kanadíska PGA en hefir frá árinu 2011 aðallega spilað á Ástralasíutúrnum.

Cullen vann sinn fyrsta titi,l sem atvinnumaður í golfi, á Enjoy Jakarta Indonesia Open á OneAsia túrnum í mars 2012.

Hann ávann sér einnig þátttökurétt á Opna breska fyrst 2012 og síðan 2016, en komst í hvorugt skiptið í gegnum niðurskurð.

Í ágúst 2013 vann Cullen fyrsta titil sinn á Ástralasíutúrnum en það var á Isuzu Queensland Open. Hann hafði betur gegn landa sínum Peter O’Malley í baráttunni um efsta sætið og átti 5 högg á hann.

Árið 2014 sigraði Cullen á einu af 3 stóru mótunum á Ástralasíumótaröðinni þ.e. Australian BetEasy Masters. Hann átti 1 högg á 3 kylfinga, þ.á.m. Adam Scott.  Hinir voru James Nitties og Josh Younger.

Sem stendur er Nick Cullen nr. 531 á heimslistanum, en kominn með keppnisrétt á Evróputúrinn 2019!!!

Á mynd: Nick Cullen sigurvegari Australian Masters 2014.