Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 24. 2019 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Clariss Guce (41/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar sem og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, en það eru þær Karen Chung, frá Bandaríkjunum; P.K. Kongkraphan frá Thaílandi; Louise Strahle frá Svíþjóð og Robyn Choi frá Ástralíu.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 6 stúlkur, sem deildu 39. sætinu og hafa þær einnig verið kynntar en það eru: Lee Lopez, Sandra Changkija, Lauren Coughlin og Stephanie Kono frá Bandaríkjunum; Pajaree Anannarukarn frá Thaílandi og Guilia Molinaro frá Ítalíu. Þessar 6 léku allar á samtals 9 yfir pari á lokaúrtökumótinu, hver. Síðan hafa þær sem deildu 36. sætinu verið kynntar en það eru: Suzuka Yamaguchi frá Japan; Louise Ridderström frá Svíþjóð og Sophia Popov frá Þýskalandi, en þær léku á samtals 8 yfir pari. Eins hafa þær 3 verið kynntar sem deildu 33. sætinu og léku á samtals 7 yfir pari en það eru Dori Carter og Lori Beth Adams frá Bandaríkjunum og Laetitia Beck frá Ísrael og sú sem var ein í 32. sætinu og lék á samtals 6 yfir pari, en það er María Fassi, frá Mexíkó.

Þær stúlkur sem deildu 27. sætinu á samtals 5 yfir pari voru Kristy McPherson, Cheyenne Knight, Sara Burnham og Lilia Vu frá Bandaríkjunum og Lily Muni He frá Kína. Síðan deildu 4 23. sæti á samtals 4 yfir pari hver, þ.e. þær Gemma Dryburgh, frá Skotlandi; Jing Yan og Xiyu Lin frá Kína og Lauren Kim frá Bandaríkjunum. Þær hafa allar verið kynntar.

Þrjár stúlkur deildu 20. sætinu, allar á samtals 3 yfir pari en það voru: Maddie McCrary, og Alana Uriell frá Bandaríkjunum og Jenny Haglund frá Svíþjóð.

Í dag verður haldið áfram að kynna þær, sem deildu 15. sætinu, allar á samtals 2 yfir pari, en það voru: Alison Lee, Clariss Guce og Katie Burnett, frá Bandaríkjunum, hin hollenska Anne Van Dam og Tiffany Chan frá Hong Kong. Alison Lee hefir verið kynnt og í dag er það Clariss Guce.

Clariss Guce fæddist 24. apríl 1990 á Filipseyjum og er því 28 ára. Guce á þar með sama afmælisdag og ekki ófrægari kylfingar og Lee Westwood, Jonas Blixt og Lydia Ko!!!

Guce byrjaði að spila golf 9 ára og það var afi hennar sem dró hana í golfið, á völlinn við hliðina á hestahlaupabrautinni, þar sem hann vann.

Guce fluttist síðan með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna og spilaði golf m.a. í menntaskóla en fannst hún aldrei neitt góð.

Hún spilaði síðan 4 ár í bandaríska háskólagolfinu með California State, Northridge. Sjá má um afrek Guce í bandaríska háskólagolfinu með því sð SMELLA HÉR: 

Guce átti ágætis áhugamannaferil en hún hlaut m.a. viðurkenninguna Big West leikmaður ársins 2014, árið sem hún útskrifaðist.

Hún ákvað að fara ekki strax að reyna sig meðal þeirra bestu heldur safnaði reynslu minni mótaröðunum og til að halda sér við, meðan hún vann fyrir sér með öðrum hætti en golfinu. Árið 2015 ákvað Guce að gerast atvinnumaður í golfi og komst strax á Symetra Tour.

Nýliðaár Guce á Symetra Tour var 2016 og strax það ár sigraði hún á tveimur mótum og var næsta ár komin á LPGA. Mótin sem Guce sigraði í voru: Danielle Downey Credit Union Classic og Decatur-Forsyth Classic.

Meðal áhugamála utan golfsins er körfubolti.  Nú hefir Guce endurnýjað spilaréttindi sín á LPGA fyrir keppnistímabilið 2019!