Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 27. 2019 | 20:00

Snjór á golfvöllum í Arizona!

Veðrið á lokahring the Waste Management Phoenix Open fyrr í þessum mánuði var ekkert sérlega gott í eyðimörkinni í Phoenix, Arizona og þurfti t.am. Rickie Fowler að fara um  TPC Scottsdale í vatnsheldum golffötum og með handahitara, en það er ekkert í samanburði við ástandið í Arizona sl. helgi.

„Arizona er staður!“ söng Hallbjörn en hvað er eiginlega að veðrinu þegar það snjóar í eyðimörkum og snjórinn liggur á kaktusunum?

Phoenix, Arizona telst til eins af sólríkustu áfangastöðunum í Bandaríkjunum, staður þar sem maður er öruggur með að geta spilað golf í sól, allan ársins hring, en nú fyrir skömmu geysaði snjóstormur í Arizona, þannig að margir af bestu golfvöllum ríkisins lágu undir snjóbreiðu.

T.d. Troon North, sem telst meðal bestu 100 golfvalla í Arizona skv. Golf.com lá undir snjólagi í síðustu viku. Sjá má myndskeið um snjóinn á Troon North með því að SMELLA HÉR: 

Meðal nýstárlegra hluta sem golfvallarstarfsmenn urðu að hreinsa á vellinum eftir að mesta veðrinu slotaði voru gulrætur, sem félagar í klúbbnum höfðu notað þegar þeir bjuggu til snjókarla víðsvegar um völlinn!

En það góða er að í Arizona varir snjórinn ekki lengi. Þó snjóað hafi sl. föstudag og laugardag þá bárust fréttir frá t.a.m.  Troon North að dren í vellinum virkuðu vel og hann væri allur að þorna og koma til og menn farnir að spila aftur golf við tiltölulega „eðlilegar aðstæður“ sl. sunnudag.