Ólafía Þórunn sigurvegari á Galvin Green mótinu 2011. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2012 | 18:00

Viðtalið: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR.

Golfárið 2011 var frábært  hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, GR. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í golfi: í holukeppni, höggleik og með sveit GR í sveitakeppni GSÍ, aðeins 18 ára gömul.  Þar að auki varð hún í fyrsta sinn klúbbmeistari GR í kvennaflokki, enda í fyrsta skipti sem hún tók þátt í meistaramóti GR og eins sigraði hún höggleikinn í mörgum þeirra opnu móta sem hún tók þátt í,  t.d. Opna Galvin Green kvennamótinu í Grafarholtinu, 19. júní 2011.

Ólafía Þórunn er sem kunnugt er í einum besta golfháskóla í Bandaríkjunum, Wake Forest í Norður-Karólínu, þar sem margir af fremstu kylfingum Bandaríkjanna hafa stigið sín fyrstu skref til undirbúnings fyrir atvinnumennsku í golfi, menn eins og Arnold Palmer, Webb Simpson og Bill Haas og svo spilar Ólafía Þórunn í golfliði með frænku Tiger Woods, Cheyenne.

Ólafía Þórunn sigurvegari á Galvin Green mótinu 2011. Mynd: Golf 1

Ólafía Þórunn sigurvegari á Galvin Green mótinu 2011. Mynd: Golf 1

En hér fer viðtalið við Ólafíu Þórunni:

Fullt nafn: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Klúbbur: GR.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég fæddist í Reykjavík, 15. október 1992.

Hvar ertu alin upp?   Ég ólst upp í Mosfellsbæ fyrir utan að ég bjó 2 ár í Danmörku, þegar ég var lítil.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?   Ég bý heima hjá pabba og mömmu og á  2 bræður og 2 systur. Allir, nema systur mínar eru í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég fór örugglega á fysta golfnámskeiðið 10 ára og spilaði í fyrsta mótinu mínu, 12 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Það voru bara flestallir á kafi í golfi í fjölskyldunni.

Ólafía Þórunn og Andri Þór, klúbbmeistarar GR 2011. Mynd: grgolf.is

Hvað starfar þú?  Ég er námsmaður í Wake Forest, í Norður-Karólínu, Bandaríkjunum.

Hvernig líkar þér við Wake Forest? Það er æðislegt, alveg ótrúlega gaman. Ég hlakka til að fara út – ég hlakka til að koma heim. Það er gaman allt árið.

Hvað er svona gott við Wake Forest? Hann er einn af sterkustu golfskólum Bandaríkjanna og líka námslega séð. Svo er Campus-inn lítill og maður getur labbað um allt, því háskólasvæðið er öruggt.

Hvernig er Cheyenne Woods, frænka Tigers?  Hún er alveg frábær. Hún er ein af betri vinkonum mínum.  Cheyenne er ótrúlega indæl og vill allt fyrir mann gera, svo er hún skuggalega góð í golfi. Hún er alveg tilbúin í ativnnumanninn, þó hún ætli að klára Wake.

Hvað fer mikill tími í æfingar á dag hjá þér úti?   Á virkum degi er ég 1 klukkustund í ræktinni  og 4 klukkustundir í golfi.

Ólafía Þórunn á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar upp á Skaga 28. maí 2011. Mynd: Golf 1.

Hvernig lítur dæmigerður dagur út hjá þér, úti?  Ég vakna kl. 6:30  og er komin í ræktina kl. 7. Skólinn byrjar kl. 8 og það er misjafnt hvenær ég er búin – yfirleitt kl. 12 eða 14.  Svo bara fær maður sér eitthvað að borða og fer svo beint út á æfingasvæði. Þar er æfing og strax eftir æfingu hleypur maður að fá sér aftur að borða.  Þegar það er búið kl. 19 fer maður að læra með sérstökum aðstoðarmönnum, tutorum.

Voru mikil viðbrigði að koma til Bandaríkjanna frá Íslandi?  Já, mér fannst þetta aðeins of heitt fyrir mig í byrjun og svo var ótrúlega mikil og ströng dagskrá.

Er mikill munur á völlunum í Bandaríkjunum og hér á Íslandi?  Já, það er aðeins meira af skógarvöllum úti og vellirnir eru í mun betra ástandi líka.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Ég veit það ekki. Mér finnst bæði skemmtilegt.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Hvorutveggja er frábært, en það mætti vera meira af holukeppnum.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Grafarholtið og Kiðjabergið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Það er einn völlur í Kaliforníu, sem ég hef spilað, en man ekki hvað heitir. Ætli ég segi ekki bara TPC  Sawgrass.

17. brautin á TPC Sawgrass.

Hvert var skorið á 17. þar (á TPC Sawgrass)? Náðirðu yfir?  Já, pinninn var alveg hægra megin á sunnudagsstaðsetningunni , en ég fór lengst vinstra megin og þrípúttaði.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Þorlákshöfn, af því þetta er „black sand “ golfvöllur og það er enginn sandglompa á vellinum.

Hvað ertu með í forgjöf?   0,1.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? – 2 undir pari, í móti á Suðurnesjunum sumarið 2011.

Hvert er lengsta drævið þitt?   Það var 320 m dræv á Hvaleyrinni í roki og miklum meðvind og brautin var hörð.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að verða Íslandsmeistari í holukeppni og höggleik.  Árið, 2011 var frábært. Þetta er í fyrsta skipti sem ég varð klúbbmeistari, reyndar var þetta í fyrsta skipti sem ég tók þátt í meistaramóti, vegna þess að EM var alltaf á sama tíma. Árið 2011 var líka fyrsta árið mitt sem ég spila ekki bæði á Arionbankamótaröð unglinga og á Eimskipsmótaröðinni, þannig að ég gat notað tímann til að æfa mig meira og gat slakað meira á.

Hefir þú farið holu í höggi? Nei.

Ólafía Þórunn, á Íslandsmótinu í höggleik 24. júlí 2011. Mynd: Golf 1.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Ég er oftast með túnfisksamloku og vatn og fæ mér suðusúkkulaði á 3. hverri holu.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, já já ég var í badminton og handbolta í Fylki og Fram.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er humar, uppáhaldsdrykkur, æ ég veit það ekki, uppáhaldstónlist er eitthvað rólegt með Coldplay, John Mayer eða Jóni Jóns, uppáhaldskvikmyndir eru margar t.d. Disturbia, Speed og Titanic og uppáhaldsbókin er Grafarþögn eftir Arnald Indriðason.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu a.m.k. 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:  Cheyenne Woods og Michelle Shin      Kk:  Birgir Leifur, Alfreð og Ernie Els.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín og af hverju er hún það?  Í pokanum hjá mér eru Titleist Vokey wedgar 60°, 56° og 52°   Titleist AP2 kylfur,  Edel pútter, Exotic hálfviti og 4-tré. Svo er ég með Titleist DComp 10,5° dræver og með einhvers konar stiffskaft í öllu þessu. Uppáhaldskylfan mín er pútterinn, því það er skrifað með fjólubláu Ólafía á hann og vegna þess að það er mikilvægasta kylfan.

Ólafía Þórunn með uppáhaldskylfuna sína, Edel pútterinn, að spá í púttlínuna á Íslandsmótinu í höggleik, þar sem hún varð Íslandsmeistari 2011. Mynd: Golf 1.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, ég hef verið hjá svo mörgum t.d. Árna Páli og Brynjari Eldon  – þeir eru báðir frábærir.

Ertu hjátrúarfull? Nei og þó… þegar ég er að spila og gengur vel þá reyni ég að breyta engu til að halda sama “relaxaed mode-inu.”

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu?  Meginmarkmiðið í golfinu er að ná lengra – komast á einhvern túr úti , en ég er ekki búin að ákveða hvort ég vil vera í Evrópu eða heldur í Bandaríkjunum. Meginmarkmið mitt í lífinu er að vera hamingjusöm og trú sjálfri mér.

Hvað finnst þér best við golfið?  Hvað það getur verið erfitt og hvað er mikið af frábæru fólki í því.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?  80%.

Gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Æfa vel, en ekki vera að fara ef þú nennir því ekki því þá hefir þú lítið upp úr því. Það verður að æfa rétt og mikilvægast er að hafa gaman af því.

Axel Bóasson, GK ásamt Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, GR - Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.net

Axel Bóasson, GK ásamt Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, GR – Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.net

Spurning frá fyrri kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Ingunn Gunnarsdóttir, GKG): Hver er besta/fyndnasta golfsagan þín af golfvellinum?

Svar Ólafíu Þórunnar: Það var þegar ég var að spila Grafarholtið  í sumar og Bjarki Júlíusson sló í ruslatunnuna. Ég hef aldrei séð það gerast áður!

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Ólafíu Þórunnar:  Ef þú mættir velja þér eiginmann af PGA hver væri það?