Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Dagbjartur Sigurbrandsson
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 26. 2019 | 18:00

Mótaröð þeirra bestu 2019 (1): Heiðrún Anna og Dagbjartur sigruðu

Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss (GOS) og Dagbjartur Sigurbrandsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur (GR) fögnuðu sínum fyrsta sigri á ferlinum í dag á „Mótaröð þeirra bestu.“ Þau sigruðu á Egils Gullmótinu sem lauk í dag á Þorlákshafnarvelli.

Skorið var glæsilegt í báðum flokkum. Dagbjartur lék hringina þrjá á 8 höggum undir pari samtals og Heiðrún Anna var á -4 samtals.

Keppendahópurinn var sterkur á Egils Gull-mótinu. Á meðal keppenda voru margfaldir Íslandsmeistarar og atvinnukylfingar. Má þar nefna Ólaf Björn Loftsson (GKG) og Axel Bóasson (GK), sem er ríkjandi Íslandsmeistari.

Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR sigraði í karlaflokki eftir harða baráttu við Sigurð Arnar Garðarsson úr GKG. Þeir voru jafnir fyrir lokaholuna þar sem að úrslitin réðust. Þetta er fyrsti sigur Dagbjarts á „Mótaröð þeirra bestu“ en hann er 16 ára gamall, fæddur árið 2002, líkt og Sigurður Arnar.

Lokastaðan í karlaflokki:

1. Dagbjartur Sigurbrandsson , GR (69-66-70) 205 högg (-8)
2.-3. Ragnar Már Ríkarðsson, GM (69-68-69) 206 högg (-7)
2.-3. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG (69-65-72) 206 högg (-7)
4. Ólafur Björn Loftsson, GKG (68-69-70) 207 högg (-6)
5.-6. Axel Bóasson, GK (68-71-69) 208 högg (-5)
5.-6. Hákon Örn Magnússon, GR (66 -71-71) 208 högg (-5)

Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss sigraði í kvennaflokki á Egils Gull-mótinu. Þetta er fyrsti sigur Heiðrúnar Önnu á Mótaröð þeirra bestu á ferlinum.

Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG og Helga Kristín Einarsdóttir úr GK deildu 2. sætinu á pari vallar samtals.

Lokastaðan í kvennaflokki:

1. Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS (70-72-67) 209 högg (-4)
2.-3. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG (71-69-73) 213 högg (par)
2.-3. Helga Kristín Einarsdóttir, GK (73-70-70) 213 högg (par)
4. Saga Traustadóttir, GR (68-76–72) 216 högg (+3)
5. Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA (72-75-72) 219 högg (+6)

Í aðalmyndaglugga: Heiðrún Anna og Dagbjartur. Mynd: GSÍ