Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 30. 2019 | 09:14

Clarke fær 2 högg í víti í skrítnu fuglahúsatviki

Í fyrsta skipti í langan tíma var fyrrum Ryder Cup fyrirliðinn Darren Clarke, 50 ára, einn af ungu strákunum.

Ekki á Evróputúrnum eða PGA Tour heldur á PGA Tour Champions, þar sem hann tók þátt í sínu fyrsta risamóti og reyndar líka bara 1. móti yfirleitt á öldungamótaröð PGA Tour, þ.e. US Senior Open, sem fram fer á Warren golfvellinum í South Bend, Indiana.

Og þar lenti hann heldur betur í skrítnu atviki…. og komst fyrir vikið ekki í gegnum niðurskurð, eins og er svo oft í tilvikum nýgræðinga.

Þegar Clarke lék 1. hring sinn á fimmtudaginn sl. púllaði hann drævið sitt, á par-4 10. holunni, vinstra megin á brautina og inn á grasbala fyrir framan skóg.

Meðan Clarke var að ræða um þau úrræði sem hann hefði í stöðunni við dómara, þá reyndi kylfusveinn hans, Bradley Whittle að færa fuglahús sem væri líklega í högglínu Clarke úr tréi, sem þar var og gerði ráð fyrir að fuglahúsið væri færanleg hindrun.

Á Warren golfvellinum er hins vegar talið að fuglahús séu ófæranlegar hindranir og skv. reglu 15.2 þá er auðvitað hægt að færa frá færanlegar hindranir en ekki ófæranlegar. Skv. reglu 16.1 má færa frá ófæranlegum hindrunum og öðrum óvenjulegum aðstæðum á völlum en aðeins ef hindrunin hefir áhrif á legu, stöðu eða fyrirhugaða sveiflu.

Clarke og dómarinn höfðu enga hugmynd hvað Whittle var að bauka, en honum mistókst að færa ófæranlegu hindrunina. Þegar dómarar gátu séð upptöku af brotinu veittu þeir Clarke 2 högga víti nokkrum holum síðar, sem gerði það að verkum að úr skollinn hans á 10. holunni varð að þreföldum skolla og Clarke lauk hringnum á 3 yfir pari, 73 höggum.

Á föstudeginum spilaði Clarke á 2 yfir pari, 72 höggum og komst ekki í gegnum niðurskurð þar sem hann var samtals á 5 yfir pari (73 72) en aðeins þeir fóru í gegn sem voru á samtals 1 yfir pari eða betra og var Clarke því 4 höggum frá því að ná niðurskurði.

Fyrir lokahringinn er Steve Stricker efstur búinn að spila á samtals 18 undir pari, 192 höggum (62 64 66). Stricker er á höttunum eftir 5. sigri sínum og 2. risamótssigri á öldungamótaröðinni. Hann sigraði á Regions Traditions fyrr á árinu.