Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 31. 2019 | 21:00

Hver er kylfingurinn: Collin Morikawa?

Einn heitasti, nýi, ungi kylfingurinn í dag er bandaríski atvinnukylfingurinn Collin Morikawa.

Hann er 1,75 m á hæð og 77 kg.

Collin Morikawa

Morikawa fæddist 6. febrúar 1997, sonur Debbie og Blaine Morikawa og er því 22 ára á þessu ári.

Hann er frá  La Cañada Flintridge í Kaliforníu.

Morikawa sigraði á Sunnehanna Amateur, Trans-Mississippi Amateur og the Western Junior, sem þykja fremur stór mót áhugamanna í Vesturríkjum Bandaríkjanna.

Sjá má helstu mót sem Morikawa sigraði í sem áhugamaður í tímaröð hér að neðan:

2013 Western Junior
2015 Trans-Mississippi Amateur
2016 Silicon Valley Amateur, Sunnehanna Amateur
2017 ASU Thunderbird Invitational, Northeast Amateur
2018 Wyoming Desert Intercollegiate, Querencia Cabo Collegiate, Annual Western Intercollegiate
2019 The Farms Invitational, Pac-12 Championship

Morikawa útskrifaðist frá La Cañada High School.

Árið 2015 byrjaði hann í bandaríska háskólagolfinu og spilaði með golfliði University of California, Berkeley, þar til hann útskrifaðist nú í vor með gráðu í viðskiptafræði. Sjá má um afrek Morikawa í bandaríska háskólagolfinu með því að SMELLA HÉR: 

Í maí í fyrra (2018) var Morikawa 3 vikur samfleytt í efsta sæti heimslista áhugamanna.

Morikawa gerðist atvinnumaður í golfi nú í ár, 2019 og var fyrsta mót hans sem atvinnumanns, RBC Canadian Open, þar sem hann varð T-14.

Þann 16. júní 2019 varð Morikawa síðan T-35 á Opna bandaríska, sem er besti árangur hans í risamótum til þessa og reyndar eina risamótið, sem hann hefir spilað í!

Þann 7. júlí 2019 varð Morikawa T-2 á the 3M Open og þann 14. júlí varð hann T-4 á John Deere Classic.

Með þessum árangri tryggði Morikawa sér kortið sitt á PGA Tour fyrir 2019-20 keppnistímabilið.

Hann sigraði síðan tveimur vikum síðar, þ.e. sl. helgi, 28. júlí 2019 á Barracuda Championship – þar sem hann átti 3 punkta á Troy Merritt.

Morikawa er frábær kylfingur, sem gaman verður að fylgjast með og sem þrátt fyrir ungan aldur er þegar kominn með fyrsta PGA Tour sigur sinn!!!