Ragnheiður Jónsdóttir | september. 5. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2020: Tim Wilkinson (1/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður kynntur sá kylfingur, sem rétt slapp inn á PGA Tour og var í 25. sæti eftir reglulega tímabilið, Tim Wilkinson, sem var með 775 stig á stigalista Korn Ferry Tour.

Timothy (Tim) David Wilkinson fæddist 26. júlí 1978 í Palmerston North, Nýja-Sjálandi og er því 41 árs.

Hann er 1.74 á hæð og 70 kg.

Hann var í St Peter’s College, Palmerston North og spilaði því ekki í bandaríska háskólagolfinu.

Wilkinson sigraði á New Zealand Stroke Play Championship árið 2000 og 2002 á SBS Invitational. Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2003.

Hann komst á undanfara Korn Ferry Tour, Nationwide Tour, árið 2005 og hefir spilað þar mestmegnis síðan.