Ragnheiður Jónsdóttir | september. 9. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Vince Covello (5/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður kynntur sá kylfingur varð í 21. sæti eftir reglulega tímabilið, Vince Covello, sem var með 826 stig á stigalista Korn Ferry Tour.

Vince Covello fæddist 26. nóvember 1982 í Springfield, Pennsylvaníu og er því 36 ára.

Hann var í Episcopal Academy í Philadelphíu árin 1998-2000 en útskrifaðist síðan frá Nease High School í St. Augustine, Flórída árið 2001.

Covello á þrjár systur og tvo bræður.

Hann er 1,88 m á hæð og 86 kg.

Hann spilaði golf í bandaríska háskólagolfinu með liði sínu University of North Florida.

Covello gerðist atvinnumaður í golfi 2004. Hann komst á Nationwide Tour 2013 (nú Korn Ferry Tour). Árið 2015 var Covello á Mackenzie Tour í Kanada. Eini sigurinn á Korn Ferry Tour kom árið 2019 þ.e. á Chitimacha Louisiana Open presented by MISTRAS, en hann var uppistaðan í því að Covello hlaut 826 stig á stigalista KFT og er kominn á PGA Tour keppnistímabilið 2019-2020.

Í dag býr Covello á Atlantic Beach í Flórída.

Meðal áhugamála eru snjóborð og veiðar.

Fræðast má nánar um Covello í nýlegu viðtali PGA Tour við hann með því að SMELLA HÉR: 

Annað um Covello:

Hann myndi elska að vera „pitchari“ þ.e. kastari í MLB liði í bandaríska hornaboltanum.
Mottó-ið hans er „Maður lifir aðeins einu sinni og ekkert skiptir máli“ (Ens.: „You only live once and nothing matters.“)
Uppáhalds lið Covello eru frá  Philadelphíu: the Phillies, Eagles og Flyers.Covello er mikill aðdáandi James Bond kvikmynda. Hann ferðast ekki án sólgleraugna og uppáhalds tækið hans er myndavélin hans. Meðal uppáhaldsíþróttamanna Covello eru Michael Jordan, Larry Bird og Kobe Bryant (þ.e. af íþróttamönnum sem ekki eru kylfingar), uppáhaldsborgir Covello eru New York City og San Diego, uppáhaldsgolfvellir eru Llanerch CC og Atlantic Beach CC, uppáhaldsappið er Weather Channel og uppáhaldssjónvarpsþættirnir eru „Jeopardy“ og „NCIS“ .
Meðal uppáhaldsminninga í golfinu er þegar Covello fékk að vera með varafyrirliða liðs Bandaríkjanna á Ryder Cup 2004 og keyra um með honum í golfbíl á mótinu.
Meðal mótaraða sem Covello hefir keppt á eru European Challenge Tour árið 2010 og the OneAsia Tour árið 2014-15.