Ragnheiður Jónsdóttir | september. 13. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Robby Shelton (23/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður tekið forskot á sæluna og aðeins farið út fyrir rétta röð – kynntur til sögunnar verður sá kylfingur, sem varð í 3. sæti eftir reglulega tímabilið, Robby Shelton, sem var með 1816 stig á stigalista Korn Ferry Tour. Ástæða þess að dansað er út úr réttri röð með að kynna „nýju strákana“ er að Shelton er í forystu eftir 1. dag á móti vikunnar á PGA Tour, A Military Tribute at the Greenbrier. Frábært er að sjá einn þeirra nýju slá í gegn þegar í fyrsta mótinu!!!

Robert (Robby) Shelton IV fæddist í Mobile, Alabama, 25. ágúst 1995 og er því nýorðinn 24 ára. Hann veit það líklegast ekki, en hann á sama afmælisdag og Úlfar Jónsson, fv. landsliðsþjálfari og virðast margir golfsnillingar fæddir á þessum degi. Shelton ólst upp í Wilmer en býr nú í Birmingham, Alabama.

Hann var í 3 ár í University of Alabama 2013-2016, en hann gerðist atvinnumaður í golfi 2016 eftir 3. árið sitt í háskóla.

Shelton spilaði í Walker Cup liði Bandaríkjanna 2015 þar sem hann var með 2-1 árangur. Hann spilaði líka f.h. Bandaríkjanna í Palmer Cup 2014 og 2015.

Sem áhugamaður varð hann T-3 á Barbasol Championship á PGA tour. Þetta var besti árangur áhugamanns frá því að Phil Mickelson spilaði sem áhugamaður í PGA Tour móti 1991.

Shelton komst líka inn á Opna bandaríska 2014, þar sem hann komst ekki gegnum niðurskurð.

Með því að sigra á Southern Hills Plantation mótinu á Swing Thought Tour mótaröðinni í febrúar 2017, þá varð Shelton fyrsti bandaríski 2015 Walker Cup leikmaðurinn, frá báðum liðum til þess að sigra í atvinnumannamóti. Hann fylgdi þessu eftir með sigri á kanadísku PGA Tour og varð í 2. sæti peningalistans og ávann sér þannig sæti á Web.com Tour (undanfara Korn Ferry Tour).

Árið 2019 sigraði Shelton tvívegis á Korn Ferry Tour þ.e. á Nashville Golf Open 5. maí og Knoxville Open 19. maí og varð vegna þessa árangurs eins og segir í 3. sæti stigalistans eftir reglulega tímabilið og spilar nú (með þessum líka glæsilega árangri þegar á 1. mótinu) á PGA Tour, bestu karlmótaröð heims!

Robby Shelton er ótrúlega flottur kylfingur, sem verður spennandi að fylgjast með í vetur!!!