Mark Anderson
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 17. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Mark Anderson (11/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður kynntur sá kylfingur, sem varð í 15. sæti eftir reglulega tímabilið, Mark Anderson, sem var með 979 stig á stigalista Korn Ferry Tour.

Mark Anderson fæddist í Annapolis, Maryland í Bandaríkjunum 14. febrúar 1986 og er því 33 ára.

Hann byrjaði að spila golf 4 ára. Anderson spilaði fótbolta, hafnarbolta og golf á yngri árum en valdi síðan golfið vegna þess að hann var ekki nógu fljótur í fótbolta og gat ekki slegið í hafnarbolta.

Bróðir Mark Anderson, Ben, er í bandarísku landhelgisgæslunni (ens.: US Coast Guard).

Hann er kvæntur Meredith og þau eiga 2 börn Ian og Teagan Jane. Þau búa í Beaufort, S-Karólínu.

Anderson tók þátt í bandaríska háskólagolfinu, lék með liði University of South Carolina og útskrifaðist 2008 með gráðu í viðskiptafræði (ens.: Business Management).

Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2009. Þá þegar það árið sigraði Anderson á 2009 Master of Amateurs Championship.

Anderson komst á undanfara Korn Ferry Tour 2010 og hefir mestmegnis spilað þar. Hann hefir tvívegis sigrað á mótaröðinni: í fyrra skiptið 2013 á MW Charity Pro-Am Presented by SYNNEX Corporation og síðan 2019 á Country Club de Bogota Championship, sem er ástæðan fyrir að hann er kominn á PGA Tour nú.

Fyrsta skiptið sem hann ávann sér rétt á PGA Tour er árið 2012 og er Anderson því ekki „nýr strákur“ á mótaröðinni heldur einn af þeim, sem hefir verið að þvælast milli mótaraða.

Á golfferli sínum hefir Anderson áunnið sér  $2,031,230.

Annað um Anderson:

Hann segir að Cypress, Pine Valley og St. Andrews séu á lista yfir velli sem sig langi að spila á.

Uppáhaldsmatur er sjávarfang, sushi og kínverskur matur.

Uppáhaldsborg er Róm.

Uppáhaldskvikmynd er Gladiator.

Uppáhaldsbók er „Atlas Shrugged“.

Uppáhaldsgolfvellir eru Wade Hampton, Pebble Beach og Secession Golf Club.

Áhugamál Anderson utan golfsins eru veiðar, að vera á bát, garðyrkja og útivist.