Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 24. 2020 | 22:00

Axel og Ólafía sigruðu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Axel Bóasson úr Keili stóðu uppi sem sigurvegarar á B59 Hotel mótinu sem lauk í kvöld á Garðavelli á Akranesi.

Golfklúbburinn Leynir sá um framkvæmd mótsins.

Miklar sviptingar voru á lokahringnum og mikil spenna á lokakafla mótsins. Rástímum keppenda var seinkað fram yfir hádegi vegna veðurs og voru aðstæður nokkuð krefjandi – sérstaklega á fyrri hluta hringsins vegna úrkomu. Veðrið lagaðist töluvert þegar líða fór á daginn og í mótslok var veðrið með ágætum.

Ólafía Þórunn tryggði sér sigurinn með pari á lokaholunni en Valdís Þóra var með fimm högga forskot á Ólafíu fyrir lokahringinn.

Axel lék lokahringinn á -1 en Haraldur Franklín Magnús úr GR gat komið sér í bráðabana um sigurinn með því að setja niður 2-3 metra pútt fyrir pari á 18. flötinni. Það tókst ekki og Axel fagnaði sigrinum á -6 samtals eins og áður segir.