Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2020 | 14:00

Guðrún Brá og Guðmundur Ágúst kylfingar ársins 2020

Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins 2020.

Þeir eru Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Golfklúbbnum Keili, og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Þetta er í 23. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðrún Brá fær þessa viðurkenningu. Guðmundur Ágúst fékk þessa viðurkenningu í fyrsta sinn í fyrra og er þetta því í annað sinn sem hann er kylfingur ársins.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins.

Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir

Guðrún Brá er fædd árið 1994 og hefur alla tíð leikið fyrir Golfklúbbinn Keili í Hafnarfirði. Hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018 er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu. Guðrún Brá er fjórða konan frá Íslandi sem tryggir sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa einnig verið með keppnisétt á LET.

Á árinu 2020 lék Guðrún Brá á alls 11 atvinnumótum. Hún keppti á þremur mótum á LET Access mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu í kvennaflokki. Besti árangur hennar á LET Access var 14. sæti. Á sjálfri LET Evrópumótaröðinni lék hún á alls 8 mótum og besti árangur hennar var 39. sæti. Guðrún Brá verður með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta ári. Hún sigraði á Íslandsmótinu í golfi 2020 í þriðja sinn í röð og alls hefur hún landað þremur Íslandsmeistaratitlum. Aðeins fimm konur hafa sigrað á Íslandsmótinu í golfi þrjú ár í röð og er Guðrún Brá ein þeirra.

Á heimslistanum hefur Guðrún Brá farið upp um tæplega 200 sæti á þessu ári en hún er í sæti nr. 861 á heimslistanum.

25/02/2020. Ladies European Tour 2020. Women’s New South Wales Open. Dubbo Golf Club, Dubbo, New South Wales, Australia. Feb 27-Mar1 2020 Gudrun Bjorgvinsdottir of Iceland during a practice round. Credit: Tristan Jones

Það er ánægjulegt og mikill heiður að fá þessa útnefningu í fyrsta sinn á ferlinum. Árið 2020 var undarlegt ár – þar sem að nánast allar áætlanir fóru út um þúfur vegna Covid-19 faraldursins. Ég byrjaði árið á því að ná aðalmarkmiðinu, að fara á lokaúrtökumótið og komast inn á LET Evrópumótaröðina. Það tókst og er í raun hápunktur ársins 2020. Það var mikil spenna og eftirvænting hjá mér að leika heilt tímabil á LET og keppnisdagskráin var þétt og áhugverð. Það var svekkjandi fyrir alla að Covid ástandið setti allt keppnishaldið á hliðina og úr skorðum. Óvissan hefur því verið mikil frá því í vor og tekið á andlegu hliðina. Ég hef reynt að vera eins tilbúin og hægt er, vera klár þegar mót hafa verið sett á með stuttum fyrirvara. Ég hef líka reynt að horfa á þetta ástand með jákvæðu hugarfari. Ég fékk tækifæri til að spila á nokkrum LET mótum, og ég veit því hvað ég þarf að gera til að ná enn lengra. Covid-19 ástandið hefur gert það að verkum að ég hef fengið tækifæri til að vinna í hlutum sem ég hef aldrei haft tíma til að vinna í á venjulegu keppnistímabili. Ég er bjartsýn fyrir næsta ár og ég ætla mér að koma sterkari til leiks. Íslandsmótið 2020 var einnig einn af hápunktum ársins 2020. Það var mikil spenna á lokaholunum og ég var ánægð með sjálfa mig að hafa klárað það mót við þær aðstæður,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson

Guðmundur Ágúst er fæddur árið 1991 og er í Golfklúbbi Reykjavíkur. Frá árinu 2017 hefur hann verið atvinnukylfingur. Á árinu 2020 var Guðmundur Ágúst með keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour en aðeins sex íslenskir kylfingar hafa öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur Hafþórsson, Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús, Bjarki Pétursson og Andri Þór Björnsson.

Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti á stigalistanum sem er næst besti árangur hjá íslensku atvinnukylfingi á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour).

Besti árangur hans var á móti sem fram fór á Norður-Írlandi þar sem að Guðmundur Ágúst endaði í 5. sæti. Nánar hér. Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp heimslistann á undanförnum misserum. Frá árinu 2017 hefur hann farið upp um 1500 sæti en hann var í sæti nr. 510 á heimslistanum þessa.

Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu annað árið í röð. Tímabilið var ágætt að mörgu leyti og frábært að vera í hópi þeirra 45 sem fengu tækifæri að leika á lokamótinu á Mallorca. Helstu vonbrigðin var að enda ekki hærra á peningalistanum eftir að hafa komið mér í góða stöðu á mótinu sem fram fór í Portúgal. Það sem stendur upp úr á árinu er árangurinn á mótinu á Norður-Írlandi þar sem ég var ekki langt frá verðlaunasæti og einnig að komast inn á lokamótið. Ég ætla að mæta tvíefldur á næsta ári eftir þetta undarlega ár og gera enn betur,“ segir Guðmundur Ágúst Kristjánsson.



Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Kylfingar ársins frá upphafi:

1973 Björgvin Þorsteinsson GA 1
1974 Sigurður Thorarensen GK 1
1975 Ragnar Ólafsson GR 1
1976 Þorbjörn Kjærbo GS 1
1977 Björgvin Þorsteinsson GA 2
1978 Gylfi Kristinsson GS 1
1980 Hannes Eyvindsson GR 1
1981 Ragnar Ólafsson GR 2
1982 Sigurður Pétursson GR 1
1983 Gylfi Kristinsson GS 2
1984 Sigurður Pétursson GR 2
1985 Sigurður Pétursson GR 3
1986 Úlfar Jónsson GK 1
1987 Úlfar Jónsson GK 2
1988 Úlfar Jónsson GK 3
1989 Úlfar Jónsson GK 4
1990 Úlfar Jónsson GK 5
1991 Karen Sævarsdóttir GS 1
1992 Úlfar Jónsson GK 6
1993 Þorsteinn Hallgrímsson GV 1
1994 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 1
1995 Björgvin Sigurbergsson GK 1
1996 Birgir Leifur Hafþórsson GL 1
1997 Birgir Leifur Hafþórsson GL 2
1998 Björgvin Sigurbergsson GK 2 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 1
1999 Örn Ævar Hjartarson GS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 1
2000 Björgvin Sigurbergsson GK 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 2
2001 Örn Ævar Hjartarson GS 2 Herborg Arnardóttir GR 1
2002 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 2 Ólöf María Jónsdóttir GK 2
2003 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 3
2004 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 4 Ólöf María Jónsdóttir GK 3
2005 Heiðar Davíð Bragason GKj. 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 4
2006 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 5 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 1
2007 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 6 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 2
2008 Hlynur Geir Hjartarson GOS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 5
2009 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 1
2010 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 7 Tinna Jóhannsdóttir GK 1
2011 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 1
2012 Haraldur Franklín Magnús GR 1 ÓIafía Þórunn Kristinsdóttir GR 2
2013 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 8 Sunna Víðisdóttir GR 1
2014 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 9 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 3
2015 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 10 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 4
2016 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 11 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 5
2017 Axel Bóasson GK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 6
2018 Haraldur Franklín Magnús GR 2 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 2
2019 Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR 1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 3
2020 Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR 2 Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK 1

Deildu: