Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 13. 2021 | 13:00

Evróputúrinn: Boðskortin á Sádí International

Sádí International mótið er 3. mótið á mótaskrá Evróputúrsins og fer fram í Royal Greens G &CC í King Abdullah Economic borg í Sádí Arabíu dagana 4.-7. febrúar n.k.

Tilkynnt hefir verið hverjir hljóta boðskort til að taka þátt í boði mótshaldara.

Þar ber fyrstan að nefna Othman Almulla frá Sádí Arabíu.

Hann skráði sig í golfsögubækurnar árið 2019  þegar hann varð fyrsti kylfingurinn frá Sádí Arabíu til þess að gerast atvinnukylfingur og keppa alþjóðlega og þetta er 3. boðið sem hann fær frá Golf Sádí.

Saud Al Sharif er annar kylfingurinn frá Sádí-Arabíu sem mun keppa í mótinu, en hann tryggði boðskortið sitt vegna þess að hann er leiðandi áhugamannakylfingur í gestgjafalandinu og sló í gegn á MENA mótaröðinni 2020 og varð í 2. sæti í GCC Championship í Óman.

Önnur boðskort voru veitt fyrrum hæst rankaða unglingi Bandaríkjanna, Akshay Bhatia og eins enska kylfingnum Harry Hall sem keppti í Walker Cup 2019.

Írskir kylfingar sem keppa í boði Golf Saudi eru Paul Dunne og Cormac Sharvin.

Loks var eitt boðskort veitt Takumi Kanay frá Japan. Hann er fyrrum nr. 1 á heimslista áhugamanna. Kanaya gerðist atvinnumaður í október og sigraði stuttu síðar Dunlop Phoenix Masters á JGTO í aðeins 4. móti sínu sem atvinnumaður.

Að lokum var Shergo Kurdi frá Jórdaníu boðið og eins Eduard Rousaud Sabate frá Spáni.  Kurdi var sá fyrsti frá Miðausturlöndunum til þess að hljóta stig á heimslistanum og varð í 2. sæti á MENA Tour á Journey to Jordan, mótinu sem fram fór í Ayla golfklúbbnum í Aqaba.  Rousaud Sabate er sem stendur í 4. sæti á heimslista áhugakylfinga.

Illa hefir gengið (með nokkrum stórum undantekningum) að fá þá albestu til að keppa í Sádí Arabíu, vegna mótmæla kylfinga á morði Sádí-Araba á blaðamanninum Jamal Khashoggi, 2. október 2018.

Í aðalmyndaglugga: Frá Royal Greens G&CC í Sádí Arabíu.