Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 25. 2023 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Guðrún Brá Björgvinsdóttir –– 25. mars 2023

Það er LET-kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir, sem er afmæliskylfingur dagsins.

Guðrún Brá er fædd 25. mars 1994 og á því 29 ára afmæli í dag. Hún er í Golfklúbbnum Keili. Guðrún Brá er útskrifuð frá Fresno State háskólanum í Kaliforníu, þar sem hún spilaði golf með The Bulldogs, kvennaliði skólans í golfi.

Guðrún Brá var valin efnilegasta golfkona Íslands 2010 og átti mjög farsælan feril á unglingamótaröðunum.

Þannig varð Guðrún Brá bæði Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni í sínum aldursflokki 17-18 ára á Arionbankamótaröð unglinga 2011. Síðan unnu þau frænsdsystkinin Axel Bóasson og hún fyrsta mótið á Eimskipsmótaröðinni 2011.

Guðrún Brá tók þátt í Duke of York mótinu 2011 og 2012 og stóð sig vel, bæði skiptin.

Guðrún Brá var í landsliðshóp íslenskra kylfinga 2012 og hefir verið í landsliðshópum síðan.

Hún endurtók leikinn frá 2011, þegar hún varð Íslandsmeistari bæði í höggleik og holukeppni á Unglingamótaröð Arion banka 2012. Sjá má viðtal við Guðrúnu Brá, sem Golf 1 tók eftir að hún varð Íslandsmeistari stúlkna í höggleik 2012 með því að SMELLA HÉR:

Guðrún Brá Björgvinsdóttir (f.m.) Íslandsmeistari í holukeppni 2012. Mynd: gsimyndir.net

Guðrún Brá spilaði jafnframt á Eimskipsmótaröðinni 2012 og varð m.a. í 2. sæti í kvennaflokki á 1. móti mótaraðarinnar í Leirunni og var í forystu á 1. degi 2. mótsins, Egils Gull mótsins úti í Eyjum, en lauk keppni í 5. sæti í kvennaflokki. Guðrún Brá var í 4 manna úrslitum í Íslandsmótinu í holukeppni, þar sem klúbbfélagi hennar Signý Arnórsdóttir, GK vann. Hún hafnaði í 4. sæti í kvennaflokki á 6. og síðasta móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012, Síma mótinu í Grafarholtinu.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK á 2. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012 úti í Eyjum. Mynd: Golf 1

Af öðru merkilegu á ferli Guðrúnar Brá frá árinu 2012 mætti geta að hún mætti föður sínum, Björgvini Sigurbergssyni í Einvíginu á Nesinu, sem fram fór 6. ágúst 2012. Eins sigraði Guðrún Brá í höggleikshluta Sigga & Timo mótsins hjá GK, en mótið fór fram 25. ágúst 2012, en hún lék Hvaleyrina á 2 yfir pari, 73 höggum.

Guðrún Brá (og frændi hennar Axel Bóasson) endurtóku síðan leikinn frá 2011 á Eimskipsmótaröðinni árið 2013 og sigruðu í aftakaveðri upp á Skaga.

Af keppnisferðum Guðrúnar Brá erlendist 2013 er e.t.v. helst að geta þátttöku hennar í Ladies British Open Amateur Championship, þar sem hún stóð sig vel eins og alltaf. Af keppnisferðum Guðrúnar Brá erlendis 2014 ber eflaust hæst þátttaka hennar í HM kvenna í Japan og eins og alltaf tók Guðrún Brá þátt á Eimskipsmótaröðinni 2014 og stóð sig vel.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd: Björgvin Sigurbergsson

Árið 2015 er Guðrúnu Brá eflaust minnisstætt en þá fór hún í fyrsta sinn holu í höggi. Það var ekki á par-3 holu heldur á par-4 6. holunni á Garðavelli á Akranesi. Sjötta holan á Garðavelli 212 metra. Ásinn var því jafnframt albatross.

Árin 2014 – 2017 lék Guðrún Brá í bandaríska háskólagolfinu, með Fresno State þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2017. Á sumrin kom hún heim og spilaði á Eimskipsmótaröðinni. Eins tók hún þátt í ýmsum alþjóðamótum inn á milli s.s. haustið 2016 þegar hún tók þátt í HM áhugamanna í kvennaflokki sem fram fór í Mexíkó 14.-17. september 2016.

Síðasta mót hennar í bandaríska háskólagolfinu var í NCAA Albuquerque Regional 8.-10. maí 2017, en í það mót var hún valin til að spila sem einstaklingur, sem var mikill heiður.

Guðrún Brá varð Íslandsmeistari í holukeppni kvenna 2017, en mótið fór fram á Vestmannaeyjavelli, dagana 23.-25. júní 2017. Í júní 2017 tók hún jafnframt þátt í Opna breska áhugamannamótinu.

Hún setti vallarmet (67 högg) á Hvaleyrinni í mánuðnum þar á eftir á Íslandsmótinu í höggleik.

Sumarið 2017 tók Guðrún Brá þátt í Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki, sem fram fór í Lausanne GC í Sviss í 850 metra hæð, dagana 26.-29. júlí… og stóð sig vel eins og alltaf.

Um haustið 2017 sigraði Guðrún Brá á 1. móti 2017-2018 keppnistímabils Eimskipsmótaraðarinnar þ.e. Bose mótinu á Jaðarsvelli. Hún bætti síðan öðrum sigri við þegar þau frændsystkin Guðrún Brá og Axel sigruðu á Honda mótinu á Urriðavelli.

Anna Sólveig, GK; sigurvegarinn Guðrún Brá , GK og Saga Trausta GR. Mynd: GSÍ

Árið 2017 ber eflaust hæst að Guðrún Brá tók í fyrsta sinn þátt í úrtökumóti bæði fyrir LPGA og Evrópumótaröð kvenna í Marokkó. Því miður hafði hún ekki árangur sem erfiði í þessi skipti.

Árið 2018 var Guðrún Brá valin í lið Evrópu í Patsy Hankins bikarnum, en í mótinu keppa tvö lið – annars vegar ein 12 kvenna sveit áhugamanna frá Evrópu og síðan ein 12 kvenna sveit áhugamanna frá Asíu-og Kyrrahafslöndunum. Mótið fór fram í Doha golfklúbbnum í Qatar dagana 8.-10. mars 2018.

Seinna sama ár, 2018, varð Guðrún Brá Íslandsmeistari í höggleik, ásamt frænda sínum, Axel Bóassyni, sem sigraði í karlaflokki. Árið 2019 fór Íslandsmótið fram á Vestmannaeyjarvelli en GV fagnaði þá 80 ára afmæli.

Axel og Guðrún Brá Íslandsmeistarar í höggleik 2018

Árið 2019  tókst Guðrúnu Brá að verja Íslandsmeistaratitil sinn í höggleik, nú í Grafarholtinu, og hún komst í gegnum lokaúrtökumót bestu mótaraðar Evrópu, LET, sem hún hefir spilað á 2020 og takmarkað 2021 vegna Covid-19.

Íslandsmeistarar í höggleik 2019 – Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson

26/01/2020. Ladies European Tour. Final Stage Qualifying School. La Manga Club, South Course, Spain. Jan 22-26 2020 Gudrun Bjorgvinsdottir of Iceland, tied 10th, gaining category 08 for the season, along with her father and caddy, Björgvin Sigurbergsson. Credit: Tristan Jones

Loks mætti geta að Guðrún Brá var valin íþróttakona Hafnarfjarðar 2020.

Þeir sem vilja óska Guðrúnu Brá til hamingju með afmælið geta komist inn á Facebook síðu hennar hér fyrir neðan.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir – 29 ára – Innilega til hamingju!!!

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Ingólfur Vestmann Ingólfsson,25. mars 1952 (71 árs); Jón Gunnar Gunnarsson, 25. mars 1975 (48 ára); Örvar Þór Kristjánsson, 25. mars 1977 (46 ára); Meredith Duncan, 25. mars 1980 (43 ára ); Scott Stallings, 25. mars 1985 (38 ára); Stacey Bieber, 25. mars 1985 (38 ára); Henrik Norlander, 25. mars 1987 (36 ára); Guðni Oddur Jónsson, GS, 25. mars 1989 (34 ára) ….. og …..

Golf 1 óskar afmæliskylfingnum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is