Hvaleyrarbikararnir
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 9. 2024 | 20:00

Hvaleyrarbikararnir

Nú um helgina ráðast úrslitin í  því hverjir standa uppi sem stigameistarar GSÍ, með keppni í Hvaleyrarbikarnum.

Keppt er um Hval­eyr­ar­bik­ar­ana eins og nafn mótsins gefur til kynna. Verðlauna­grip­ur­inn á sér nokkra sögu og óvenjulega. Er hann einn af elstu bik­ur­un­um í safn­inu hjá golf­klúbbn­um Keili. Var bik­ar­inn gef­inn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eft­ir að klúbbur­inn var stofnaður. Var keppt um bik­ar­inn á opnu móti hjá Keili sem haldið var í nokk­ur ár.

Bik­ar­inn er veg­leg­ur og frem­ur óvenju­leg­ur í út­liti. Var hann hannaður og sér­smíðaður í listagalle­rí í Jap­an á sín­um tíma. Þegar stiga­mót­inu Hval­eyr­ar­bik­arn­um var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað ein­tak enda keppt í tveim­ur flokk­um í Hval­eyr­ar­bik­arn­um. Var bik­ar­inn send­ur til Kína með það fyr­ir aug­um að búa til eft­ir­lík­ingu en Kín­verj­arn­ir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólm­inn var komið.

Höfðu Keil­is­menn þá upp á listagalle­rí­inu í Jap­an og var þar smíðaður ann­ar bik­ar sem gef­inn var af Icewe­ar. Þá þurfti raun­ar einnig að gera lít­il­lega við bik­ar­inn sem hafði skemmst á heim­leiðinni frá Jap­an. Bik­ar­inn hef­ur því farið nokkr­ar ferðir á milli Íslands og Asíu.

Texti og mynd: Ólafur Þór Ágústsson/Keilir