Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 18. 2012 | 11:00

LPGA: Ai Miyazato leiðir fyrir lokadaginn á Honda LPGA Thaíland 2012

Það stefnir í hörkuslag í kvennagolfinu á LPGA á morgun og mætast þar stálin stinn.  Ai Miyazato frá Japan, fyrrum nr. 1 á R0lex-heimslista kvennagolfsins leiðir eftir 3. dag Honda LPGA Thailand 2012. Hún átti glæsihring upp á 65 högg og er því samtals búin að spila á -14 undir pari, samtals 202 höggum (67 70 65). Ai fékk hvorki fleiri né færri en 8 fugla á 3. hring, en því miður líka skolla á par-4, 3. braut Pattaya Old Course vallarins, í Síam CC, í Chonburi.

Á hæla Ai er núverandi nr. 1 kvennagolfinu, Yani Tseng frá Taíwan. Hún er aðeins 1 höggi á eftir, á samtals -13 undir pari, 203 höggum (73 65 65).

Þær sem deila 3. sætinu eru heldur ekki af verri endanum, en það er enn ein fyrrum nr. 1 í heiminum Jiyai Shin og forystukona gærdagsins, hin ástralska Karrie Webb. Þær eru 2 höggum á eftir Ai; á samtals -12 undir pari Shin (70 66 68) og Webb (68 65 71).

Fjórum höggum á eftir Ai, á samtals 206 er norska frænka okkar Suzann Pettersen og gæti líka hæglega blandað sér í baráttuna á morgun.

Aðeins neðar á skortöflunni eru mörg stór nöfn kvennagolfsins t.a.m.: Caroline Hedwall T-15 (samtals 211 högg); T-17 Brittany Lincicome T-17 (samtals 212 högg); Anna Nordqvist, Azahara Munoz og Cristie Kerr ásamt fleirum T-19 (samtals 213 högg hver); Sandra Gal og Christel Boeljon T-25 ásamt fleirum (samtals 214 högg hvor); loks eru Michelle Wie og Lexi Thompson T-36 ásamt 2 öðrum (samtals 216 högg hvor)

Til þess að sjá stöðuna á Honda LPGA Thailand 2012  eftir 3. dag smellið HÉR: