Valdís Þóra Jónsdóttir, GL.
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 21. 2012 | 20:00

Viðtalið: Valdís Þóra Jónsdóttir, GL.

Hér á eftir fer viðtal við Valdísi Þóru Jónsdóttur, margfaldan Íslandsmeistara í golfi og íþróttamann Akraness óslitið 2007-2010. Valdís Þóra stundar nám við Texas State og spilar með golfliði skólans, en liðið varð einmitt í 1. sæti nú um helgina á Cloud Jacob Challenge í Viktoría, Texas.

Fullt nafn: Valdís Þóra Jónsdóttir.

Klúbbur:  GL.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist á Akranesi, 4. desember 1989.

Hvar ertu alin upp?  Á Akranesi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég bý hjá foreldrum mínum og á 1 eldri systur og 2 eldri bræður. Allir, afi, amma, foreldrar mínir og systkini og jafnvel bræður mömmu og einn bróðir pabba spila öll golf.

Valdís Þóra 16 ára ásamt ásamt afa sínum, Alfreð Viktorssyni, sem einnig er mikill kylfingur. Mynd: mbl.is

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég tók þátt í fyrsta mótinu mínu 8 ára. Það er til mynd, sem tekin var af mér í því móti og elsta keppandanum sem var yfir 80 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég var dregin út með fjölskyldunni. Ég átti ekkert val nema að byrja. Svo kveikti þátttaka á unglingamóti á Akureyri áhugann, því þar tapaði ég í bráðabana fyrir Þórunni Guðmunds í GR og þá  byrjaði ég að æfa alveg á fullu og vann næsta mót.

Hvað starfar þú?  Ég er háksólanemi í Texas State – á sumrin er ég að vinna upp á velli á Skaganum – var á skrifstofunni s.l. sumar.

Lýstu dæmigerðum degi hjá þér í Texas State.

Ég vakna; fer í ræktina kl. 8 – um 9 og fer svo út á æfingasvæðið. Kl. 11-15:30 er ég í skólanum og eftir það fer ég aftur í ræktina eða æfingasvæðið. Þetta er planið á mánudögum og miðvikudögum á þriðjudögum og fimmtudögum er skóli frá kl. 9:30 – 13:30 Svo er æfing kl. 14:00 við æfum eða spilum. Það er enginn skóli á föstudögum þá er bara ræktin og spil. Það er síðan árangurstengt hvort er frí um helgar.

Hvort líka þér betur skógar- eða strandvöllur?   Skógarvöllur, því þá  maður þarf að hugsa út í miklu meira, hvort slegið er  lágt eða hátt eða þannig.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni – þá get ég meira spilað mitt golf meira, sem er aggressívt. Mér finnst gaman að taka sjénsa og cut-a.

Valdís Þóra. Mynd: í eigu Valdísar Þóru.

Hver eru uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi (fyrir utan Garðavöll)?  Vestmannaeyjar og Grafarholtið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Völlurinn sem ég spilaði í Brasilíu á Nick Faldo mótaröðinni – man ekki hvað hann heitir.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Völlurinn, sem ég spilaði á í Kýpur – ræsirinn sagði að það væri anakonda í röffinu. Maður var sko að fókusera á að vera á braut.

Hvað ertu með í forgjöf?  0,2.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  67 á velli í Las Vegas.

Hvert er lengsta drævið þitt? 290 metrar upp á Skaga á 16. braut, en það var ekki í móti.

Hversu stór hluti í prósentum talið er andlegi þáttur golfsins hjá þér þegar þú ert að keppa? 70%

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Íslandsmeistaratitillinn 2009 og að fá keppnisrétt til að spila á einu móti Evrópumótaraðarinnar 2009 á Ítaliu. Svo var  ég með lægsta overall skorið af stelpumun á Faldo mótaröðinni 2008.

Valdís Þóra og Helgi Dan klúbbmeistarar GL 2011. Mynd: Í einkaeigu

Valdís Þóra og Helgi Dan klúbbmeistarar GL 2011. Mynd: Í einkaeigu

Hefir þú farið holu höggi? Já einu sinni í vormóti í maí í íslensku slagviðri á 8. holu á Garðavelli, 2006 eða 2007.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er með vatnsflösku og gulan poweraid og samlokur, sem mamma smyr.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Ég var í fótbolta, karate og sundi með ÍA.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaturinn minn er kjötsúpan hennar mömmu; uppáhaldsdrykkur er Pepsi Max; uppáhaldstónlist, ég er með breiðan  tónlistarsmekk t.d. kann ég við U2, er er ekki í heavy rokki eða klassísku – hlusta á allt nema það; uppáhaldskvikmyndin er   Shawshank Redemtion; skólabækurnar eru einu bækurnar, sem ég fæ að lesa núna.

Hver er uppáhaldskylfingurinn  nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk. Sergio Garcia og Luke Donald.  Kvk: Ég á engan uppáhalds.

Hvað er í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er TaylorMade R-11 dræver TaylorMade járnasett 4-PW; TaylorMade R-9 trékylfur, TaylorMade hálfviti,  56° og 60° wedge-ar og Scotty Cameron My Girl pútter. Uppáhaldskylfan er 9-járnið, ég veit það ekki, einhvern veginn slæ ég alltaf gott högg með henni.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, Karli Ómari og Staffan.

Ertu hjátrúarfull?  Ekkert ógeðslega. Veit ekki hvort það er hjátrú, en ég er alltaf með þríkrossinn minn.

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL ásamt Friðmey, systur sinni og kaddý. Mynd: Golf 1

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL ásamt Friðmey, systur sinni og kaddý. Mynd: Golf 1

Hver er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Í golfinu er það að reyna fyrir mér í atvinnumennskunnni, ég vil frekar vera í Bandaríkjunum. Í lífinu er það að  komast eins langt og ég get á mínum forsendum, vera heilbrigð og hafa gott samband við fjölskylduna.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það besta við golfið er að fá smá break frá öngþveitinu í lífinu.

Ertu með gott ráð, sem þú getur gefið kylfingum? Já, að æfa vel stutta spilið.

Spurning frá síðasta kylfingi (Degi Ebenezerssyni í Vínardrengjakórnum sigursæla):

Ef þú fengir frí vallargjöld á 1 velli til æviloka, hvaða völl myndir þú velja?

Svar Valdísar Þóru: Augusta.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Valdísar Þóru:   Hvaða þjálfara myndir þú helst vilja fara til?

Spurningin var lögð fyrir Andra Þór Björnsson, (klúbbmeistara GR 2011) en svar hans var:

„Það væri hægt að segja Sean Foley en ég myndi allt eins vilja vera hjá Arnóri Inga og Binna.“

Spurning Andra Þórs er því sú næsta sem lögð verður fyrir næsta kylfing, sem viðtal verður tekið við:

Hvort myndir þú frekar vilja vinna Masters eða Opna breska?