Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 2. 2012 | 19:20

GK: Afrekskylfingurinn Kristján Þór Einarsson genginn í raðir Keilis ásamt Inga Rúnari – „Kjölur mun ávallt eiga sinn stað í hjarta mínu.“

Kilismennirnir Kristján Þór Einarsson, afrekskylfingur og Íslandsmeistari í höggleik 2008 og Ingi Rúnar Gíslason, golfkennari og afreksþjálfari, eru gengnir í raðir Keilis. Kristján Þór vann Íslandsmeistaratitil sinn í Vestmannaeyjum þar sem hann háði mikla baráttu við atvinnumennina Björgvin Sigurbergsson, GK og Heiðar Davíð Bragason (nú GHD).

Kristján Þór er fæddur 11. janúar 1988 og er næstyngsti Íslandsmeistari í golfi frá upphafi. Kristján á líka á baki leiki með knattspyrnufélaginu Ými úr Kópavogi og vann með þeim lengjubikarinn árið 2008.

Á facebooksíðu Kristján Þórs birtist eftirfarandi yfirlýsing hans fyrir skömmu: „Þá er þetta orðið klárt, officially orðinn Keilis maður.“

Í stuttu samtali við Golf1.is hafði Kristján Þór eftirfarandi að segja um félagaskiptin: „Meginástæðan fyrir því að ég er að skipta er að ég er að fylgja Inga Rúnari og svo er þetta lika bara góður tímapunktur til ad breyta um aðstæður og fá nýjar áskoranir í minn feril, þar sem að ég stefni alla leið i þessu sporti. Ég var búinn að vera i Kili alveg frá því að ég byrjaði i golfi – frá sumrinu 1998. Og að sjalfsögðu kveður madur klúbbinn með smá söknuði. Kjölur mun ávallt eiga sinn stað í hjarta mínu.“

Ljóst er að Kristján Þór kemur til með að styrkja Keili mikið og jafnframt er brotthvarf hans frá Kili ásamt Inga Rúnari, félaginu mikið áfall.