Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 7. 2012 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Jesper Parnevik – 7. mars 2012

Það er Jesper Parnevik sem er afmæliskylfingur dagsins, en Jesper fæddist í Botkyrka, í Svíþjóð 7. mars 1965 og er því 47 ára í dag. Hann er sonur sænska skemmtikraftsins Bo Parnevik. Jesper gerðist atvinnukylfingur 1986 og hefir á ferli sínum sigrað 14 sinnum m.a. 5 sinnum á PGA og 4 sinnum á Evróputúrnum. Hann er kannski einna þekktastur fyrir að kynna Tiger fyrir sænsku barnapíu sinni, Elínu Nordegren, sem Tiger síðan kvæntist og eignaðist 2 börn með: Charlie og Sam.

Jesper Parnevik.

Eins er Jesper þekktur fyrir óvenjulegan fatastíl og höfuðföt sín sem hann er með úti á velli. Jesper býr  í dag á Jupiter Island, í Flórída líkt og Tiger. Jesper var 38 vikur á topp-10 á heimslistanum á árunum 2000-2001 og besti árangur hans þar er 7. sætið.

Aðrir frægir kylfingar, sem eiga afmæli í dag eru:   Homero Blancas, Jr., 7. mars 1938 (74 ára);  Tom Lehman, 7. mars 1959 (53 ára); Alena Sharp, 7. mars 1981 (31 árs).