Golfvellir á Spáni: í Cádíz nr. 5 – Arcos Gardens – 1. grein af 4
Það er spurning hverju hægt er að bæta við kynningu um golfstaðinn dásamlega í Cádiz: Arcos Gardens? Búið er að skrifa 3 greinar á skömmum tíma um Arcos Gardens, hér á Golf 1,sem lesa má hér:
Svarið við spurningunni er sáraeinfalt, það er endalaust hægt að skrifa um jafnyndislegan stað og Arcos Gardens. Hér fer fyrsta af nýjum 4 greinum um þennan frábæra golfstað. Í fyrstu greininni er ætlunin að vera með leiðarvísi um sérhverja braut Arcos Gardens, sem e.t.v. kemur einhverjum heppnum, sem spila golf á Arcos Gardens nú um páskana að góðum notum hafi þeir ekki spilað völlinn áður, en þeim sem hafa gert það, er það e.t.v. góð upprifjun. (Hér að neðan má síðan sjá myndaseríur frá Arcos Gardens). Hér er fyrst stutt leiðarlýsing um Arcos Gardens golfvöllinn:
Braut 1: (hvítir: 332 m; gulir: 305m; rauðir teigar: 249m) Par 4. Þetta er ekki löng braut, liggur aðeins upp í móti í hundslöpp til hægri og allt snýst um staðsetningargolf hér. Ef boltinn er sleginn til hægri þá má búast með góðri byrjun. Síðan er að takast á við hraða flötina.
Braut 2: Par 3. (hvítir: 144 m; gulir: 126m; rauðir teigar: 89m) Nokkrar góðar sandglompur verja þennan fallega þrist. Hér þarf að halda athygli og missa sig ekki yfir fallegu útsýni og vera meira til hægri til þess að finna flötina. Ef vel tekst til er ágætis tækifæri hér að ná fugli.
Braut 3: Par 4. (hvítir: 360 m; gulir: 328m; rauðir teigar:284m) Hér er brautin í hundslöpp til vinstri. Hér er betra að vera með lágt dræv aðeins til hægri til þess að fá gott horn fyrir innáhöggið. Pinnastaðsetningin skiptir miklu á þessari mjóu flöt. Flötin er bylgjandi og leiftursnögg og þörf er á að gefa sér góðan tíma í að lesa hana.
Braut 4: Par 5. (hvítir: 468m; gulir:438m; rauðir teigar: 368m) Þessi braut er lengri en metratalan gefur til kynna og hún er öll upp í móti. Hérna þarfnast jafnvel góðir kylfingar allra 3 höggana til þess að landa inn á flöt og háforgjafarkylfingar geta prísað sig sæla að vera inni á henni í 4-5 höggum. Þetta er erfið braut. Brautarglompur gera verkefnið erfitt því sé lent í þeim er næsta öruggt að maður missi högg. Best er að slá aðhöggið aðeins til hægri við miðju. Par á þessari er eftirminnileg reynsla.
Braut 5: Par 4. (hvítir: 388 m; gulir: 352m; rauðir teigar: 290m) Þetta er önnur lengsta par-4 brautin á fyrri 9 og hún er gott test á langa spilið. Vindur getur hér haft áhrif að mati Spænskra í teighögginu, en varla að mati Íslenskra því vindur verður aldrei á Arcos eins og hann er hér á landi. Aðhöggið er hér aðeins niður í móti og að vera langur er ekki málið hér!
Braut 6: Par 3 (hvítir: 159 m; gulir: 137m; rauðir teigar: 100m). Þetta er yndisleg par-3 braut (Innskot: Á mjög góðar minningar héðan) sem fær mann til að missa andann. Að vera stutt/ur hér er betra en að vera langur. Maður verður að draga andann djúpt og missa sig ekki yfir allri fegurð vallarins og slá högg dagsins á miðju flatarinnar. Par á þessari segja Spænskir og maður getur montað sig! (Innskot: Ég var óþolandi!)
Braut 7: Par 4 (hvítir: 304 m; gulir: 267m; rauðir teigar: 210m). Þessi strategíska, lítillega hundslapparformaða braut þarfnast rétta höggsins. Þeir sem eru högglangir gætu reynt við flöt sérstaklega ef smá meðvindur er. Gæta þarf varúðar til hægri. En segja verður að fyrir kylfinga af öllum getustigum þá er hér góð braut til þess að reyna við par/fugl.
Braut 8: Par 4 (hvítir: 395 m; gulir: 363m; rauðir teigar: 294m) Þetta er lengsta par-4 brautin. Brautin er í hundslöpp til vinstri upp í móti með flatarglompum sem gerir þetta að erfiðustu holu fyrri 9. Hún er erfið!!! Sérstaklega fyrir þá sem ekki eru högglangir – sé svo er mikilvægt að vera beinn og forðast glompurnar!!! Að vera til hægri gefur besta hornið fyrir innáhöggið inn á flöt. Síðan tekur við parkett-sleip flötin, sem gert hefir mörgum kylfingnum skráveifu, jafnvel eftir gott spil á braut.
Braut 9: Par 5 (hvítir: 491 m; gulir: 467m; rauðir teigar: 397m) Þessi fallega par-5 braut er góður endir á fyrri 9. Þetta er braut sem verðlaunar áhættutökur. Eftir gott dræv eru góðir sjénsar fyrir þá högglengri að vera inn á flöt í 2 höggum. En að taka áhættu er lykillinn hér. Hér er vatn við flötina og meðfram brautina sem verður að forðast.
Braut 10: Par 4 (hvítir: 380 m; gulir: 346m; rauðir teigar:284m). Þetta er ekki of löng par-4 til að byrja seinni 9 á. Forðast verður brautarglompuna til vinstri til þess að leggja upp fyrir gott aðhögg. Betra er að taka meiri kylfu í aðhögginu ef flaggið er aftarlega hægra megin, þar sem flötin hallar frá hægri til vinstri.
Braut 11: Par 5 (hvítir: 468 m; gulir: 438m; rauðir teigar:377m) Hér þarf 3 högg (fyrir forgjafarlága) til þess að lenda inni á flöt. Sandglompur eru til vinstri og það verður að staðsetja sig vel. Flötin á 11. er sú smæsta á vellinum en með miklu breaki. Jafnvel þó spilið sé gott á braut þá á eftir að tækla flötina! Þessi er svolítið snúin.
Braut 12: Par 4 (hvítir: 393 m; gulir: 363m; rauðir teigar: 303m) Aðeins 3. lengsta par-4 á seinni 9, þær eru alveg agalega langar og erfiðar á seinni 9, a.m.k. af rauðum teigum. Hér reynir á að vera frumlegur í hugsun. Til að vega upp lengdina á brautinni þá liggur hún aðeins niður í móti. Hér er betra að vera til vinstri í teighögginu til þess að ná góðum vinkli í aðhögginu. Flötin er vel varin. Hér verður að ná „A“ spili til þess að fá par.
Braut 13: Par 4 (hvítir: 396 m; gulir: 366m; rauðir teigar: 313m) Þessi er alltaf nr. 13 í mínum huga – erfið!!! Öðrum finnst hún skemmtileg, en þetta er næstlengsta par-4 brautin á vellinum og liggur öll upp í móti. Þetta er krefjandi braut, en hér er þó þakkarvert hversu breið brautin er. Að ná inn á flöt í 2 höggum er afrek! Eiginlega ekki mögulegt nema fyrir þá högglengstu. Þeir sem ekki eru högglangir verða að skrambla hér fyrir pari – vera inn á í 3 og einpútta.
Braut 14: Par 4 (hvítir: 306 m; gulir: 305m; rauðir teigar: 249m) Loksins stutt viðráðanleg braut! Þetta er stutt hundslöpp og en braut sem reynir á strategíu. Best að vera til hægri í drævinu og þá er hægt að ráðast á pinnann með stuttu járni. Varast ber sandglompuna til vinstri.
Braut 15: Par 3 (hvítir: 165 m; gulir: 142m; rauðir teigar: 107m) (Innskot: Uppáhaldsbrautin mín! Veit ekki af hverju kannski vegna þess að hún er auðveld en líka vegna þess að einkennisbraut Arcos er að nálgast og stórfenglegt útsýnið yfir Arcos de la Frontiera!) Best er að reyna að slá vinstra megin við miðju inn á flötina. Flötin er eins og aðrar flatir á Arcos svo hröð þannig að ekki ofgera neinu hér. Góð parhola!
Braut 16: Par 5 (hvítir: 517m; gulir: 492m; rauðir teigar: 419m) Hér er útsýnið fallegast af öllum vellinum. Teigarnir eru upphækkaðir og slegið er niður á par-5 brautina. Þessi er styttri en metrafjöldin segir til um á skorkortinu en hér verður að varast vatnið sem er ansi nálægt flötinni. Annars er mjög einfalt að missa einbeitinguna á þessari og horfa á útsýnið… ekki að ástæðulausu að sú 16. er einkennisbraut Arcos.
Braut 17: Par 3 (hvítir: 184m; gulir: 164m; rauðir teigar: 126m) Hér þarf að hafa sig alla/n við að ná pari. Treysta verður á fjarlægðina á skorkortinu því glompan fyrir framan flöt lætur fjarlægðina virðast styttri. Á flötinni eru margar lævísir hólar, þannig að það verður að verja góðum tíma í að lesa púttlínuna. (Innskot: Ég fékk par á þessari … og ef ég get það… getið þið það líka!)
Braut 18. Par 4 (hvítir: 429 m; gulir: 406m; rauðir teigar: 318m) Lengsta par-4 braut vallarins og mjög krefjandi. Sagt er að í drævinu sé best að vera hægra megin við miðju það gefi besta hornið inn á flöt. Aðhöggið má ekki mistakast annars er hætta á að lenda í vatninu til vinstri en hættan er öll vinstra megin. Þvílík braut til þess að ljúka frábærum hring á Arcos Garden!
Hér að lokum má sjá myndir frá Arcos Garden:
Gistimöguleikar á Arcos Gardens:
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024