Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 25. 2012 | 17:45

Evróputúrinn: Michael Hoey stóð uppi sem sigurvegari á Trophée Hassan II í Marokkó

Það var Norður-Írinn Michael Hoey, sem stóð uppi sem sigurvegari á Trophée Hassan II í dag. Hann var á samtals – 17 undir pari, 271 höggi (74 67 65 65) þ.e. bætti sig með hverjum hring, eftir fremur erfiða byrjun.  Á hringnum í dag fékk Hoey 8 fugla og 1 skolla.

Hoey fæddist í Ballymoney, á Norður-Írlandi, 13. febrúar 1979 og er því 33 ára.  Hann átti sitt besta ár á ferlinum í fyrra, árið 2011, þegar hann vann 2 mót á Evróputúrnum, Madeira Open og svo e.t.v. það mót sem mönnum er ferskara í minni Alfred Dunhill Links Championship á Skotlandi.

Í 2. sæti á Trophée Hassan II varð Írinn Damien McGrane, sem búinn var að leiða allt mótið. Damien spilaði á samtals – 14 undir pari, samtals 274 höggum (65 68 71 70) og átti engan draumaendi á annars ágætu móti, sem er svo nauðsynlegt þegar kylfingar á borð við Hoey eru að fara langt undir parið tvo daga í röð.

Í 3. sæti urðu 3 kylfingar – 2 Wales-verjar Philip Price og Jamie Donaldson og Englendingurinn Robert Coles, allir á -13 undir pari samtals.

Sjötta sætinu deildu aðrir 3 kylfingar Ítalarnir Edoardo Molinari og Matteo Manassero og Keith Horne frá Suður-Afríku allir á -12 undir pari hver, 5 höggum á eftir Michael Hoey.

Til þess að sjá önnur úrslit á Trophée Hassan II smellið HÉR: