Um góða siði á golfvöllum: Að slá á aðra
Hér verður fram haldið þar sem frá var horfið í gær um góða siði á golfvöllum:
„Ein aðalsiðaregla golfíþróttarinnar snýr að öryggi sbr. „Leikmenn ættu ekki að leika fyrr en leikmennirnir næst á undan eru úr höggfæri.”
Þann 20. október á síðasta ári (2009) skrifaði Sigurður Geirsson, alþjóðadómari R&A inn á golfspjall.is:
“Sú háttsemi að slá bolta án þess að kylfingarnir á undan séu komnir úr höggfæri, þannig að bein hætta sé á að þeir geti fengið boltann í sig, er í beinni andstöðu við siðareglur golfsins. Hafi þetta verið óvart t.d. að kylfingur hafi slegið lengra en hann gerir venjulega þá á hann að biðjast afsökunar á þessu og slíka afsökun eiga aðrir kylfingar að taka gilda.
Sé þetta hins vegar gert viljandi hvort heldur sem er til að reka á eftir næsta holli á undan, eða viðkomandi kylfingur telur sig það „góðan“ að hann geti auðveldlega slegið yfir kylfingana á undan þá er þar hins vegar um algera óvirðingu að ræða við siðareglur golfsins og aðra kylfinga og ætti að kæra til aganefndar viðkomandi klúbbs án tafar. Kylfingar sem slíkt stunda eiga ekkert erindi inn á golfvöll sama hversu góðir þeir eru eða hvaða forgjöf þeir eru með.”
Í gær var fjallað um 4 kylfinga sem héldu 1 kylfingi fyrir aftan sig 9 brautir án þess að bjóða honum að fara fram úr. Það varð til þess að kylfingurinn, sem var einn í holli missti loks þolinmæðina og sló á kylfingana fyrir framan sig, þó þannig að hann ylli engri hættu.
Hann baðst síðan afsökunar á að hafa slegið á þá, en afsökunarbeiðni hans var ekki tekin til greina.
Skv. siðareglum R&A ræður leikhraði hver á mestan rétt á vellinum 1 kylfingur á mestan rétt á vellinum, vegna þess að líkurnar eru með því að hann spili hraðast, síðan 2 kylfingar, 3 og loks 4 kylfingar í holli.
En hvernig horfir málið við þegar 4 kylfinga holl vill taka fram úr öðru 4 kylfinga holli? Er það í öllum tilvikum það hollið, sem „telur sig geta spilað hraðar“, sem á réttinn til þess að fara fram úr?
Hér verður getið atviks, sem átti sér stað nýlega og snýr að því sem er til umfjöllunar í dag: leikhraða og því að slá inn á kylfinga á braut á undan.
Um var að ræða þrjú 4-manna holl. Fyrsta hollið var í móti. Í næsta holli voru 4 heldri konur og í aftasta hollinu sem um ræðir 3 karlar og 1 kona. Aftasta hollið var vægast sagt ósátt með leikhraða kvennanna fjögurra, sem þó spiluðu á þeim hraða, sem í boði var á vellinum þann daginn. Leikhraðinn var eðlilegur, miðað við aðstæður, það var einfaldlega pakkað á völlinn í veðurblíðunni. Allir hefðu átt að njóta þess að spila dýrasta völl landsins síðhausts í draumaveðri. En annað átti nú eftir að koma á daginn.
Einn maðurinn í aftasta hollinu vatt sér að einni konunni í hollinu fyrir framan hann og öskraði á hana:„Stelpur, þið eigið að hleypa okkur fram úr – þið eruð alveg búnar að missa braut.” „Stelpurnar” urðu ekki við því – enda búnar að slá á brautina, sem þær voru að spila og mótshollið á undan þeim rétt komið á teig, á næstu braut. Þær voru fráleitt búnar að missa braut. Þetta varð hins vegar til þess að aftasta hollið sló ítrekað á kvennahollið á undan eins og til þess að reka á eftir því, sem hafði mjög truflandi áhrif á leik kvennanna. Ein konan sagðist spila þennan dýra völl aðeins einu sinni á ári og sig hlakkaði alltaf til þess, en hollið fyrir aftan hefði alveg eyðilagt upplifun ársins fyrir sér. Eftir að hafa slegið nokkrum sinnum á konurnar, kom einn maðurinn í aftasta hollinu enn blaðskellandi og gargaði háum rómi hvort þær ætluðu virkilega ekki að hleypa þeim fram úr? Þarna var mótshollið rétt búið að slá af teig og konurnar komnar í bið á eftir því. Það var akkúrat ekkert sem benti til þess að þær léku hægar en hollið, sem á eftir kom. Af hverju í ósköpunum hefðu þær átt að hleypa öðru 4 manna holli fram úr sér þarna? Þær voru í bið vegna hollsins á undan, sem þó spilaði hringinn á eðlilegum leiktíma 4:20 klst.
Maður spyr sig: hver er tilgangurinn? Þvílíkur dónaskapur að eyðileggja leik annarra með því að taka eiginn pirring út á öðrum kylfingum á golfvellinum. Þegar 4 aðilum er hleypt fram úr til þess að vera á eftir öðru 4 manna holli, þá tefur það leik fyrir öllum sem á eftir koma. Ef holl spila á þeim leikhraða sem í gangi er á vellinum þann daginn þá eru auk þess engar forsendur til að hleypa fram úr, sérstaklega ekki þegar engin auð braut er á milli holls og þess, sem á undan er. Að krefjast þess að fá að fara fram úr er í því tilviki ekkert annað en eiginhagsmunapot og tillitsleysi, sérstaklega þegar „krafan“ um það að mega fara fram úr er sett fram háum rómi, en kylfingum ber skv. siðareglum að forðast að vera með óþarfa hávaða á golfvöllum. Auk þess ber hér að minna á að skv. orðanna hljóðann í siðareglum R&A er það hollsins, sem er á undan „að bjóða“ hollinu, sem á eftir er, að fara fram úr.
Svo er skýlaust brot á siðareglunum að trufla leik hollsins á undan, vegna gremju um hægan leikhraða á golfvellinum þann daginn, með því að slá viljandi á það. Golfboltar lenda ekki alltaf þar sem þeim var ætlað, það þarf ekki annað en að boltinn fari lengra en ætlað er, spýtist í stein, breyti um stefnu og lendi í manni í hollinu fyrir framan. Kylfingar, sem viljandi stofna heilsu annarra í hættu eiga ekkert erindi á golfvöllinn – þeim væri nær að fara í keilu eða taka upp aðra íþrótt.
Þess mætti loks geta að „ef kylfingar skeyta engu um siðareglurnar við leik umferðar eða um einhvern tíma, öðrum til óþurftar, er hægt að beita tilhlýðilegum refsiaðgerðum. Unnt er að kæra kylfinga fyrir aganefnd viðkomandi klúbbs. Nefndin getur gripið til aðgerða sem fela í sér leikbann á vellinum í ákveðinn tíma eða í ákveðnum fjölda kappleikja. Slíkt er talið réttlætanlegt í því markmiði að gæta hagsmuna alls þorra kylfinga sem vilja leika í samræmi við siðareglur. Sé um alvarlegt brot á siðareglum að ræða má nefndin beita leikmann frávísun samkvæmt reglu 33-7.”
Að lokum: Sérhver kylfingur er í golfi af sínum eigin persónulegu ástæðum. Aðalástæða flestra er þó ánægjan sem golfíþróttin veitir þeim. Fólk eyðir ekki tíma sínum og peningum í dýran golfútbúnað, golffatnað, golfkennslu, félagsaðild að golfklúbbi, golfferðalög eða t.d. dýr vallargjöld, til þess að lenda síðan í leiðindum úti á golfvelli. Því er svo mikilvægt að allir virði siðareglur golfíþróttarinnar, s.s. kurteisi og tillitssemi, þannig að sérhver golfhringur verði þeim og öðrum gleðigjafi!“
Grein greinarhöfundar hefir áður birtst á iGolf 24. september 2010.
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024