Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 11. 2012 | 16:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2012 (16. grein af 20) – Karlin Beck

Hér er komið að því að kynna Karlin Beck, en hún varð ásamt þeim Jodi Ewart og Dori Carter í 4. sæti á lokaúrtökumóti Q-school LPGA. Jodi hefir þegar verið kynnt (í gær) og Dori verður kynnt á morgun.  Að þeim kynningum lokum er aðeins eftir að kynna þær 3 stúlkur sem röðuðu sér í efstu 3. sætin eftir 5 daga keppni á Champions og Legends golfvöllunum, í Flórída þar sem lokaúrtökumótið fór fram dagana 30. nóvember – 4. desember 2011.

En snúum okkur nú að Karlin.

Karlin Beck.

Karlin Beck fæddist 6. ágúst 1987 í Montgomery, Alabama og er því 24 ára. Hún er dóttir Steve og Kathy Beck og á 1 systur Kinley.  Karlin spilaði golf með golfliði Auburn University og útskrifaðist með gráðu í endurskoðun og með frönsku og alþjóðlega viðskiptafræði í undirgrein.  Sjá má afrek Karlin í bandaríska háskólagolfinu með því að smella HÉR: 

Eftir útskrift 2011 gerðist Karlin atvinnumaður í golfi og komst strax á Futures Tour, keppnistímabilið 2011 og strax í fyrstu tilraun sinni í desember 2011 í Q-school flýgur hún inn á LPGA og er því nýliði í ár.

Karlin byrjaði í golfi 12 ára og segir afa sinn hafa verið þann aðila sem hafði mest áhrif á feril sinn. Meðal áhugamála sinna segir Karlin vera tennis, að horfa á kvikmyndir, hérar, og hún er að eigin sögn fréttafíkill. Ef hún væri ekki atvinnukylfingur myndi hún gjarnan vilja starfa sem endurskoðandi í kvikmyndaiðnaðinum!