Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 8. 2012 | 20:00

Viðtalið: Unnar Ingimundur Jósepsson, GSF

Viðtalið í kvöld er við fyrsta austfirska kylfinginn, sem kemur í  viðtal hér á Golf1.is.  Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Unnar Ingimundur Jósepsson

Klúbbur: GSF (Golfklúbburinn á Seyðisfirði).

Unnar Ingimundur Jósepsson, GSF. Mynd: Í einkaeigu.

Hvar og hvenær fæddistu? Reykjavík  4.apríl 1967.

Hvar ertu alinn upp? Seyðisfirði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Einhleypur.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði 1996.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Um vorið 1996 fóru nokkrir framtakssamir menn á Seyðisfirði  í að kynna mönnum golfið, upp úr því byrjaði ég.

Hvað starfar þú?  Ég er Löndunarstjóri hjá Gullberg ehf og Brimberg ehf.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Ég verð að segja holukeppni, þó mér finnist mjög gaman og krefjandi að spila höggleik.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Á eftir Hagavelli kemur Jaðarsvöllur á Akureyri.

Hagavöllur á Seyðisfirði er uppáhaldsgolfvöllur Unnars Ingimundar – þar á eftir kemur Jaðarsvöllur á Akureyri. Mynd: visitseydisfjordur.is

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Islantilla Golf Resort.

Frá Islantilla golfvellinum.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Ég veit ekki hvað ég á að segja, völlurinn á Valle del Este er svolítið sérstæður vegna þess að allir teigar eru hringlaga.

Valle del Este.

Hvað ertu með í forgjöf?   7,6

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   70 högg á Hagavelli á Seyðisfirði.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Í fyrra haust í meðvindi drævaði ég inná green á 6.holu (270m) á Ekkjufellsvelli.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að spila á parinu á Opna Brimbergs mótinu 2007  og setja vallarmet á Hagavelli.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Á mótum er ég yfirleitt með Hleðslu svo er MAXarinn aldrei langt undan.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Fótbolti, skíði, blak og badminton.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhalds maturinn er lambafille; drykkurinn er pepsi max;  ég hlusta mest á rokk og popp; uppáhalds myndin er Airplane og bókin: Why you lose at bridge eftir S.J. Simon.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Annika Sörenstam og Tiger Woods.

Hvert er draumahollið?  Það væri magnað að taka hring með John Daly, Bubba Watson og Tiger Woods.

Unnar Ingimundur Jósepsson, GSF. Mynd: Í einkaeigu.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ping G20 driver ( ping i15 driver), Ping G20 3-tré, Ping G15 17gráðu hybird, Ping i15 W-6járn, Ping G15 5-3járn, Ping S-tour wedges, Ping Scottdale Wolverine H pútter, uppáhalds kylfan er driver!

Hefir þú verið hjá golfkennara? Ég hef farið til nokkurra kennara.

Ertu hjátrúarfullur?  Sennilega, ég fer alltaf í hægri skóinn á undan þeim vinstri.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Það er að lifa lífinu lifandi og í sátt við annað fólk og í golfinu að njóta góðs félagsskapar góðra félaga, einnig reyna að bæta sig sem golfara.

Hvað finnst þér best við golfið?   Félagsskapurinn og fá útrás fyrir keppnisskapið.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Hún er há!

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Að setja sér markmið og vinna þolinmóður og skipulagður í að ná því.

Spurning frá síðasta kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Björgu Traustadóttur, GÓ): Hefir þú spilað Skeggjabrekkuvöll á Ólafsfirði? 

Svar Unnars Ingimundar: Ég á eftir að spila Skeggjabrekkuvöll.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Unnars Ingimundar: Heldur þú að Tiger Woods eigi  aftur eftir að ná  fyrsta sætinu á heimslistanum?