Geoff Ogilvy
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 20. 2011 | 09:00

Ogilvy gagnrýnir val Tiger í Forsetabikarsliðið

Ástralinn Geoff Ogilvy segir að sér finnist undarlegt að sigurvegari PGA Championship, Keegan Bradley hafi ekki verið valinn í lið Bandaríkjanna í Forsetabikarnum meðan Tiger Woods hljóti sérmeðferð.

Ogilvy er lykilleikmaður í alþjóðlega liðinu sem leikur gegn liði Bandaríkjanna í Forsetabikarnum, sem fram fer á 2 ára fresti og spilað verður um á Royal Melbourne golfvellinum í næsta mánuði. Ogilvy sagði þetta á símafundi í dag og sagðist undrandi á að bandaríski fyrirliðinn Fred Couples hefði opinberlega tryggt Tiger sæti vikum áður en tilkynna átti um valið.

„Maður getur aldrei sagt að það að velja Tiger Woods sé slæmt val, en aðferðin sem hann notaði við valið…“ sagði Ogilvy . „Ég er ekki sammála því hvernig staðið var að vali hans, með tilkynningu mánuðum fyrr og þar með að segja strákunum sem eiga möguleika að komast í liðið að í raun sé aðeins eitt sæti laust.“

„Augljóslega hefði átt að velja Keegan Bradley. Hann vann tvö mót í ár, eitt af þeim risamót og hann er ekki í liðinu sem – það er bara skrítið að hann skuli afreka allt þetta á einu ári og ekki vera í liðinu,“ bætti hann við.

„Ég ætla ekki að rísa upp og segja að Tiger sé hræðilegt val, en ég segi að það séu vonbrigði að Keegan Bradley fái ekki að spila. Það er það sem ég meina.“

Bradley fær hugsanlega enn tækifæri til að spila á Royal Melbourne eftir að rannsóknir leiddu í ljós í gær að liðsmaður bandaríska liðsins, Steve Stricker er með rifinn disk í hálsvöðva.

Meðan enn á eftir að ákveða hvort Stricker sé í nógu góðu formi til að spila 17.-20.nóvember, þá hefir Couples sagt að ef Stricker geti ekki spilað, þá komi Bradley í hans stað.

Ogilvy sagði að Royal Melbourne — sem er sá völlur þar sem alþjóðaliðið hefir hingað til náð eina sigri sínum 1998 — sé alþjóðaliðinu hagstæðari völlur en því bandaríska.

„Þetta (valið á Royal Melbourne) kemur að miklu gagni,“ sagði hann. „Hann er ekki álitinn einn af erfiðustu golfvöllunum í heiminum lengur, en þetta er völlur þar sem staðarþekking kemur að góðum notum.“

Heimild: CBS Sports