Bjarki Pétursson, GB, á síðari keppnisdegi Örninn Golfverslun, 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar, 27. maí 2012, á 7. braut í Leirunni. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 29. 2012 | 21:45

Viðtalið: Bjarki Pétursson, GB

Bjarki Pétursson í Golfklúbbi Borgarness var valinn efnilegasti kylfingur Íslands í lokahófi GSÍ 10. september 2011. Seinna á árinu var Bjarki síðan valinn Íþróttamaður Borgarness 2011.  Enda er ferill Bjarka frábær: Hann varð Íslandsmeistari unglinga 17-18 ára í höggleik (á Grafarholtsvelli í Reykjavík); hann varð Íslandsmeistari unglinga 17-18 ára í holukeppni (á heimavelli sínum, Hamarsvelli í Borgarnesi); hann varð stigameistari á Unglingamótaröð Arion banka 2011 í flokki 17-18 ára pilta.

Bjarki Pétursson, GB, Íslandsmeistari í höggleik 2011 í flokki pilta 17-18 ára. Bjarki er 2. frá hægri.

Bjarki er klúbbmeistari GB, 2009-2011 óslitið. Eins tók hann þátt í Duke of York unglingamóti á Hoylake golfvellinum hjá Royal Liverpool golfklúbbnum, en þar tóku þátt landsmeistarar frá 31 landi.  Bjarki varð í 16. sæti sem var frábær árangur, því veður var með versta móti mótsdagana. Bjarki varð ennfremur fyrstu í vali á unglingum undir 18 ára sem tóku þát í Evrópumóti unglinga í Prag í Tékklandi.

Nú á þessu ári, 2012, var Bjarki valinn í afrekshóp GSÍ og fór m.a. í æfingaferð á Eagle Creek í Flórída fyrr á árinu. Bjarki hefir þegar sigrað í flokki 17-18 ára pilta á 1. móti Unglingamótaraðar Arion banka á þessu ári, 2012 og eins tók hann þátt í 1. mót Eimskipsmóta-raðarinnar í Leirunni s.l. helgi. Hér fer viðtal sem tekið var við Bjarka:

Fullt nafn: Bjarki Pétursson.

Klúbbur: Golfklúbbur Borgarness.

Hvar og hvenær fæddistu? Sjúkrahúsinu á Akranesi, 2 desember 1994.

Hvar ertu alinn upp? Í Borgarnesi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf? Já, foreldrar mínir spila golf og svo eru bræður pabba í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ætli ég hafi ekki byrjað að leika mér bara mjög ungur, sirka 6-7 ára en maður byrjaði svosem ekki að æfa fyrr en bara um 10 ára aldur eða svo.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Foreldar mínir voru í golfi og svo heillaði þetta sport mig mjög.

Bjarki Pétursson, GB. Mynd: Golf 1.

Hvað starfar þú /ef í námi: í hvaða skóla/námi ertu? Ég er í námi við Menntaskóla Borgarfjarðar, ég er á félagsfræðibraut en mögulega fer ég að skipta yfir á íþróttasvið ef ég get.

Nú sigraðir þú uppi á Skaga s.l.  helgi  á Unglingamótaröð Arion banka í flokki 17-18 ára pilta – hvernig verður maður svona góður í golfi eins og þú?  Þetta var nú kannski ekki golf til þess að hrópa húrra fyrir fyrri daginn en þetta gekk fínt seinni daginn. Ég hef alltaf haft þá hugsun að maður eigi ekki að æfa allan daginn alla daga, heldur áttu að fara á æfingu með markmið, ná þessum markmiðum hvort sem það tekur langan tíma eða stuttan, það er allavega eins og ég æfi.

Lýstu tilfinningunni þegar ljóst var að þú hefðir unnið – Tilfinninginn að sigra er alltaf góð, en ég var þó ekki mjög sáttur þar sem að ég náði ekki mínu markmiði fyrir þetta mót. En alltaf frábær tilfinning að vinna!

Hver eru markmiðin fyrir sumarið? Þau eru vel geymd hjá mér 🙂

Finnst þér þátttaka í æfingaferðum og mótum erlendis vera að skila sér?… og hversu mikilvægt telur þú að slíkar ferðir séu ungum kylfingum? Klárlega, þetta er eitthvað sem er alveg ný lífsreynsla þegar maður fer út að keppa og það er mjög mikilvægt að efnilegir krakkar séu fengnir til þess að fara eins mikið og þau geta út að keppa því að þetta finnst mér persónulega nokkuð ólíkt mótunum hérna heima.

Hvað æfir þú mikið á dag? Það fer eftir mánuðum, æfi ekki neitt 1-2 mánuði á ári til þess að fá löngun fyrir því að æfa og finnast það gaman, en þegar ég er komin í góðan gír á sumrinn þá er ég að æfa mjög mikið, líkamsrækt, sem golf.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli? Bæði með sinn sjarma, en skógarvellir eru töluvert skemmtilegir finnst mér.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni, býður upp á mikið af flottum og óvæntum höggum, sem að menn myndu líklega ekki reyna í höggleik.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? GB þegar hann er í sínu besta standi á sumrinn, fátt sem toppar það hér á landi finnst mér.

16. brautin á uppáhaldsbgolfvelli Bjarka á Íslandi, Hamarsvelli í Borgarnesi. Mynd: helgasmugmug.com

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Lake Nona og Celebration.

Frá Celebration golfvellinum í Flórída, öðrum af uppáhaldsgolfvöllum Bjarka erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Líklega Royal Liverpool, útaf því að þessi völlur er hátt rankaður í heiminum. Og Lake Nona líka útaf því að það er alltaf stórt mót á þeim velli sem ég man ekki hvað heitir, margir af bestu kylfingum heims sem taka þátt þar.

Hoylake klúbbhúsið á Royal Liverpool golfvellinum, sérstæðasta golfvelli sem Bjarki hefir spilað á.

Hvað ertu með í forgjöf? 1,6

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 67 á Hamarsvelli ( -4) og svo tók ég mót í fyrra og spilaði 68-68 (-8) en það var á Leirunni.

Hvert er lengsta drævið þitt? Ég bara veit það ekki, ábyggilega svoldið yfir 300 metra þegar maður er komin á harða velli og í meðvind.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Íslandsmeistaratitlar, Stigameistaratitlar.

Hefir þú farið holu í höggi? Já, á 10.  holu á  Hamri, 11 ára.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Banana, flatkökur, hafraköku og vatn/appelsínusafa.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, ég hef tekið þátt í fótbolta, körfubolta, badminton.

Sveifla Bjarka á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar upp á Skaga 28. maí 2011. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Matur: Humar og lambahryggur/kótilettur. Drykkur: Pepsi max. Tónlist: kallast hip pop held ég. Kvikmynd : man ekki hvða hún heitir, chris brown leikur í henni. Bók: „Hann var kallaður þetta“ eftir

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? John Daly og Annika Sörenstam.

Hvert er draumahollið? Daly, Rory, Luke.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Titeist 910 driver og 3 tré. 9 og 15 °, Titleist hybrid 585. Ap2 3-9. Wokey 48, 54°, 60° og Titleist Scotty Cameron Select Newport 2,5. Golfboltar, tí, kíkir, teip og ipod.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, Sigurður Hafsteinsson er kennari minn núna og okkar samstarf gengur mjög vel.

Ertu hjátrúarfullur? Get ekki sagt það, en mögulega á einhvern hátt.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Gera þetta að atvinnu og komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.

Hvað finnst þér best við golfið? Einstaklingssport, ekki hægt að skipta þér út ef þú ert ekki að spila vel.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)? Mjög há, 60-70 % hugsa ég, ég veit alveg að ég get spilað flott golf, spurningin er bara hvort andlegi hlutin sé í lagi hvern dag.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Já, æfa markvisst og vel.