Anna Sólveig Snorradóttir ásamt kaddý. Mynd: gsimyndir.net
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 26. 2012 | 10:15

Eimskipsmótaröðin (3): Anna Sólveig Snorradóttir varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni! – Viðtal

Anna Sólveig Snorradóttir, GK, varð í 2. sæti í kvennaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni, en hún spilaði í úrslitaleiknum við Signýju Arnórsdóttur, GK, um Íslandsmeistaratitilinn. Anna Sólveig spilar bæði á Unglingamótaröð Arion banka og Eimskipsmótaröðinni og segist ætla að einbeita sér meira að Unglingamótaröðinni í ár, en reyna að taka þátt í eins mörgum mótum á Eimskipsmótaröðinni og hún geti.

Anna Sólveig er í afrekshóp GSÍ og hún stóð sig vel þ.e. næstbest af 6 stúlkum sem tóku þátt í Opna írska undir 18 ára í maí s.l.  Anna varð í 2. sæti á 1. móti Unglingamótaraðar Arion banka, og í 3. sæti á mótinu að Hellishólum og nú síðast að Korpunni. En Anna Sólveig hefir líka verið í 1. sæti; t.a.m. á Vormóti Hafnarfjarðar 2011 þar sem hún var á besta skori kvenna, 79 höggum, en þátttakendur í mótinu voru 130.  Hér fer stutt viðtal við Önnu Sólveigu:

Golf 1: Þú hefir staðið þig vel á Unglingamótaröð Arion banka nú í ár, ertu ekki sátt við árangur þinn þar?

Anna Sólveig: Jú, að sumu leyti, öðru ekki.  En, ég hef alltaf verið að spila svo illa á fyrri hringnum.  Núna þarf mér bara að ganga vel á fyrri hring til að þetta fari að smella.

Golf 1: Þú kepptir til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni; er þetta besti árangur þinn á Eimskipsmótaröðinni?

Anna Sólveig: Já, því þetta er í raun fyrsta árið mitt á Eimskipsmótaröðinni og 2. mótið á Mótaröðinni sem ég tek þátt í, í ár. Þar áður hef ég aðeins spilað  á einu móti á Eimskipsmótaröðinnni heima á Hvaleyrinni í fyrra.  Annað sætið á Íslandsmótinu í holukeppni er besti árangurinn til þessa.  Besti árangurinn þar áður var 3.-4. sætið á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar Örninn Golfverslun hjá GS nú í vor. Þar hélt ég að mér hefði bara gengið vel vegna þess að mér gengur yfirleitt vel að spila í vindi.

Golf 1: Hvort kanntu betur við holukeppni eða höggleik?

Anna Sólveig: Ég kann betur við holukeppni.  Þar get ég tekið áhættur og er ekki að pæla í neinum hugsanlegum mistökum.

Golf 1: Nú vannstu alla leiki þína í undankeppninni á Íslandsmótinu í holukeppni, þ.e. á móti Berglindi Björns, GR; Þórdísi Geirs, GK og Jódísi Bóasdóttur, GK og svo vannstu Ingunni Gunnarsdóttur, GKG,  5&4 í 4 manna úrslitunum.  Hvaða leikur tók mest á?

Anna Sólveig: Ég var stressuðust í keppninni við Ingunni.  Annars veit ég það ekki. Þeir voru allir erfiðir, ég var kannski afslöppuðust gegn Jódísi, en bara vegna þess að ég var búin að vinna hina 2 leikina og var eiginlega komin áfram og hefði mátt tapa þeim leik.

Golf 1: Aðeins um úrslitaleikinn sjálfan við Signýju, ertu ánægð með spilið þitt?…. og hvar náði Signý yfirhöndinni?

Anna Sólveig: Ég var mjög ánægð með spilið mitt.  Við vorum jafnar allt að 16. teig. Ég átti aldrei von á því. Það var á 16. holu sem leikurinn snerist. Við áttum báðar gott teighögg á 16. braut. Annað högg Signýar var á braut en höggið mitt lenti ofan í holu og ég varð að taka víti og fékk skolla á holuna en Signý paraði. Á 17. teig var ég of mikið að hugsa um að ég yrði að vinna þá holu og teighöggið endaði á veginum þar sem boltinn skoppaði yfir á 1. braut og síðan tapaði ég  þeirri holu.

Golf 1: Hver eru markmiðin fyrir sumarið og hvað tekur nú við hjá þér?

Anna Sólveig: Markmiðin fyrir sumarið eru bara þau að ég ætla að reyna að standa mig vel.  Markmiðin eru einkum forgjafarleg, ég ætla að lækka í forgjöf.  Það sem tekur við hjá mér eru miklar æfingar. Ég ætla að spila golf í allt sumar.